Góðir smíðisgripir heilla. Timburskipin voru mörg listasmíð. Fagurt handverk leitar á hugann og laðar fram tilfinningar. Fallegir smíðisgripir vekja aðdáun. Og það er eitthvað stórkostlegt við það sem vel er gert, höfðar til dýpta í okkur, opnar sál og dekrar við vitund.
Fegurðarskyn fólks er vissulega mismunandi en í öllum mönnum býr geta til skynjunar og túlkunar hennar. Og þessi geta er okkur gefin í vöggugjöf. Trúmenn sjá í henni gjöf Guðs. Þegar við lútum að hinu smáa getum við séð stórkostlega dvergasmíð í blómi, daggardropa, regnboga, fjöllum, ám og vötnum og litaspili náttúrunnar. Og í náttúrunni er verið að hanna, laga, móta og búa til dýrðarveröld. Börn allra alda leggjast á bakið á dimmum nóttum til að stara upp í næturhimininn og upplifa, horfa á stjörnur blika, stjörnuhrap teikna línu á hvelfinguna, sjá hvernig stjörnurnar raðast í kerfi. Þar er annar smíðisgripur – handaverk Guðs. Allar menn leita hins fagra og reyna að skilja í hverju lífið er fólgið og hver merking þess er. Smíð veraldar er ábending um hvað tilveran er og að heimssmiður er að baki. Og allar aldir hafa gímt við þessa miklu heimsskák. Sálmaskáld 8. Davíðssálms tjáði sína túlkun, undrun, hrifningu og trú er hann sagði.
Þegar ég horfi á himininn,
verk handa, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.
Upphaf
Í dag kveðjum við Magnús Vilhjálmsson sem kunni að meta góða smíðisgripi, vissi hvað þurfti til að gera vel, hvernig vinna yrði til að úr yrði laglegur gripur, sem bæði væri fagur í hinu ytra og þjónaði líka sínu hlutverki vel.
Magnús Vilhjálmsson fæddist í Hafnarfirði 14. janúar árið 1926. Foreldrar hans voru Bergsteinunn Bergsteinsdóttir og Vilhjálmur Guðmundsson. Hann var nefndur, skráður og skírður Bergsteinn Magnús, en notaði aldrei Bergsteinsnafnið. Systkinahópurinn var stór og Magnús var yngstur 11 systkina. Bræðurnir voru sjö og fjórar systur. Allur þessi stóri hópur kom i heiminn á aðeins 19 árum. Systkini hans eru Hallbera, Jóhann, Sigurbjartur, Sigurjón, Ingimar, Guðbjörg, Ólafur, Helgi, Guðrún og Dórothe. Þau eru nú öll látin nema Helgi, sem lifir bróður sinn. Fjölskyldan tók þátt í lífinu í Hafnarfirði og þau áttu sér kirkjulegt samhengi í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.
Benskuheimilið við Álfaskeið var í nágrenni við Hellisgerði. Elstu börnin voru farin að heiman þegar Magnús fæddist, en það var samheldni í hópnum, söngur og gleði. Þau lærðu snemma að vinna og smábúskapur var stundaður á heimilinu. Allur barnahópurinn tók sig saman á sumrin og fór austur í Ölfus til að heyja í skepnurnar. Og Magnús fékk ungur að fara með þeim og meðan hann var að safna kröftum var hann settur í matseldina. Það hefur alltaf verið þarft að kunna að elda hafragraut.
Skóli og vinna
Magnús sótti skóla í Hafnarfirði, gekk vel og var efnispiltur. Um tíma tók hann þátt í starfi Fimleikafélags Hafnarfjarðar og var í sýningarhóp. Magnús var dugmikill til verka og kom sér snemma í vinnu þar sem vinnu var að fá. Þegar stríðið skall á varð nóg að gera og hann fékk vinnu hjá hernámsliðinu, m.a. í Engey. Svo fór hann í Iðnskólann og varð húsasmiður og skipasmiður, sem hann fékkst lengstum við. Hann fékk vinnu hjá Dröfn í Hafnarfirði, en síðar fór hann til Slippfélagsins í Reykjavík og var gjarnan í Daníelsslipp. Svo vann hann um tíma á trésmíðaverkstæði Flugleiða. Atvinnuleysi rak Magnús um tíma til vinnu í Svíþjóð og var í nokkra mánuði við skipasmiðar í Malmö á árinu 1968.
Heimilin
Magnús bjó heima og hjá foreldrum sínum í Hafnarfirði fram á fullorðinsár og varð þeim góð ellistoð. Hin systkinin flugu úr hreiðrinu eitt af öðru. Það var í Breiðfirðingabúð, sem þau Magnús og Guðrún Guðlaugsdóttir sáu hvort annað. Hún fann til hversu myndarlegur Magnús var. Þetta var milli jóla og nýárs árið 1951 og þau löðuðust hvort að öðru. Það skal vanda sem lengi skal standa. Þau flýttu sér ekki heldur kynntust vel áður en þau hófu hjúskap og giftu sig árið 1956. Magnúsi þótti vænt um Hafnarfjörð, en hann var þó til í að færa sig um set þegar þau Guðrún höfðu ruglað reitum. Þau bjuggu fjöslkyldu sinni gott heimili og smiðurinn smíðaði það sem þurfti, hvort sem voru innréttingar, skápar og húsmunir. Og þau Guðrún voru samstillt. Þau eyddu ekki um efni fram heldur voru fyrirhyggjusöm.
Þau bjúggu lengstum í vesturhluta Reykjavíkur, byrjuðu búskap á Nýlendugötu og fóru síðan í Háaleiti og voru þar í ellefu ár. Síðan fluttu þau á Túngötu og Vesturvallagötu og fóru þaðan á Grandaveg 47.
Þau Magnús eignuðust dóttur í september árið 1957. Hún heitir Guðbjörg og er kennari að mennt og starfar við Landakotsskóla. Hennar maður er Árni Larsson, sem er rithöfundur. Guðbjörg segir að foreldrar hennar hafi búið henni áhyggjulausa æsku. Pabbinn hafi smíðað fyrir hana það sem hún þurfti af húsgöngum, dúkkuhúsum og leikföngum, meira segja straujárn úr tré – sem daman var sátt við og þjónaði fullkomlega sínu hlutverki. Magnús hafði ánægju af að hjálpa dóttur sinni við stærðfræðina og tala við hana og blása í hana sagnaranda og frásagnargetu.
Samfélagsmál, hugðarefni og eigindir
Magnús var mjög vakandi fyrir samfélagsmálum. hann hafði áhuga á kjörum og aðbúnaði stéttar sinnar, var stéttvís alþýðusinni og tók þátt í félagsmálum. Hann var virkur og var um tíma í stjórn Málm- og skipasmíðafélagsins. Hann skoðaði samfélagsmál með augum réttlætis og vildi leggja sitt af mörkum til að staða fólks i samfélaginu yrði sem jöfnust og laun og kjör væru réttlát. Magnús var vakandi gagnvart stjórnmála- og menningarþróun, innanlands og utan og hafði ákveðnar skoðanir. Hann fagnaði þegar alþýðu manna tókst að ná fram réttindamálum sínum og dæmi um gleðilega atburði, sem Magnús gladdist yfir, var árangur Samstöðu-hreyfingarinnar í Póllandi. Hann tók aðstæður og þróun í alþjóðapólitíkinni til sín og varð t.d. um þegar Sóvétríkin réðust inn í Ungverjaland árið 1956 – og var ekki einn um.
Magnús var vel lesinn. Hann las skáldverk en ekki síst fræðirit – um sögu, sjórnmál, þróun heimsmála og strauma og stefnur. Það hreif hann sem opnaði refilstigu fjármagns og hvernig kapítalið stýrði og mótaði. Svo hafði hann víðsýni til að opna sálargáttir gagnvart andlegum fræðum einnig og las t.d. um speki Austurlanda.
Og svo átti skákin hug hans. Hann tefldi og stundaði skákrannsóknir, tefldi skákir meistaranna og varð öflugur skákmaður, sem tók þátt í mótum og því merkilega starfi sem skákhreyfingin hefur verið hér á landi. Hann var m.a. Hafnarfjarðarmeistari.
Magnús var jafnan stillingarmaður, flíkaði ekki tilfinningum, var lítið um inntantómt hjal, þagði frekar en taka þátt í orðavaðli. En hann sagði gjarnan sögur og kunni að segja frá. Honum þótti gaman að fléttum sagnamennskunnar og hafði einnig góðan smekk fyrir góðum brag, sem kveðnir voru af næmi og íþrótt.
Magnús naut góðrar heilsu lengstum og allt til ársins 2006 er hann kenndi sér meins og leitaði lækninga. Þá kom í ljós, að hann var komin með parkinsonveiki sem tók æ meiri toll af honum. Að lokum fór svo að hann fór á Hjúkrunarheimilið á Grund í maí á síðasta ári. Hann naut þar aðhlynningar sem ástvinir vilja þakka fyrir. Magnús náði að halda upp á 86 ára afmælið sitt þann 14. janúar og lést tveimur dögum síðar. Hann verður lagður til hinstu hvílu i Fossvogskirkjugarði.
Manneskjan er opin, ómótuð við upphaf. Við leitum að formi, áferð og stíl í lífinu. Skaphöfn Magnúsar, líf hans og lífshættir urðu til að hann þorði að spyrja um rök og leiðir. Lífsskák hans var ekki samkvæmt bókinni heldur opin. En þannig er heimur lífs og þannig hugsa spekingar trúarinnar líka um Guð – sem hinn mikla lífssmið, sem þorir jafnvel að leyfa efnivið að ráða, veitir frelsi, blæs í brjóst mönnum ást til réttlætis, sanngirni, jöfnuðar og allra hinna mikilvægu gilda og dyggða sem hefð okkar vestrænna manna hefur rætt og byggt á.
Ástvinir þakka Magnúsi fyrir það sem hann var þeim, gaf og veitti. Nú er hann farinn af þessum heimi inn himin eilífðar. Hvernig verður sá heimur í gerðinni? Fær hann að njóta enn meiri fegurðar, enn stórkostlegri smíðaupplifunar en í þessum heimi? Trúin, vonin og kærleikurinn geta hvílt í Guðsfaðminum sem allt bætir og stækkar.
Guð geymi Magnús í eilífð sinni, blessi hann og varðveiti. Og Guð geymi þig og varðveiti á þinni vegferð í tíma og til eilífðar.
Útför Fossvogi 26. janúar, 2012.
Æviágrip
Magnús Vilhjálmsson fæddist í Hafnarfirði 14. janúar 1926. Hann andaðist á Elli og hjúkrunarheimilinu Grund þann 16. janúar síðastliðinn. Faðir hans var Vilhjálmur Guðmundsson f. í Hreiðri í Holtum í Rangárvallasýslu 24. 9.1876 d. í Hafnarfirði 24. 2. 1962 . Móðir Magnúsar var Bergsteinunn Bergsteinsdóttir f. í Keflavík 4. 9.1888, d. 9. 4. 1985. Systkini Magnúsar voru þau Jóhann, f. 1907, d. 1980, Hallbera, 1907, d. 1992, Sigurbjartur, 1908, d. 1990, Sigurjón, 1910, d. 1994, Ingimar Vilbergur, f. 1912, d. 1959, Guðbjörg, f. 1914, d. 1949, Ólafur Tryggvi, f. 1915, d. 1996, Helgi Guðbrandur, f. 1918, Dóróthea, 1924, d. 1984. Magnús giftist Guðrúnu Guðlaugsdóttur 14. janúar 1956. Dóttir þeirra er Guðbjörg maður hennar er Árna Larsson. Magnús lærði húsa og skipasmíði í Dröfn í Hafnarfirði. Hann vann lengst af í Daníelsslipp.