Björg Björgvinsdóttir – Minningarorð

Björg var búin að taka á móti mörgum viðskiptavinum í fyrirtækjum, sem hún átti og rak og taka við fataplöggum fólks til hreinsunar. Margar spjarir var hún búin að þvo og brjóta fallega saman um dagana. Hún dró ekki af sér, gekk í verkin, talaði hlýlega við þau, sem hún afgreiddi. Svo þegar hún var búin með mjúku efnin og fötin þá færði hún sig í stærri og hörðu hlutina – og sá um að bílafloti borgarbúa liti þokkalega út. Og fólkið hennar Bjargar var búið að njóta umhyggju hennar. Þau sjá á bak falslausri og yndislegri konu, sem var hrein og bein, ósérhlífin og vildi vernda og hlýfa fólkinu sínu. Öllum vildi hún gera gott.

Umhyggja Guðs

Umhyggja og elskusemi Bjargar báru í sér vott um umhyggju Guðs. Björg lagði gott til allra, fegraði það sem henni var falið, lagði mikið á sig fyrr og síðar að hreinsa þann hluta heimsins sem var á hennar ábyrgð. Í Biblíunni er margt sagt um Guð og afstöðu til veraldar. Og guðsmyndin er dregin upp með orðfæri manna. Guði er lýst með því að tala um tilfinningalíf, sem menn þekkja úr mannheimum. Guð vill vernda, laga, hreinsa, taka flekki og bletti, þvo og gera tandurhreint að nýju. Afstaða Guðs er ávallt að vernda, hreinsa, lækna og efla menn. Guð elskar og þrífur heiminn til að gera hann fallegan og góðan. Heimur Guðs á að vera hreinn og alþrifinn.

Þessi hreinleikasókn er öllum mönnum í blóð borin og birtist með ýmsum hætti í lífi okkar. Björg var fulltrúi þessarar heimsbleikingar bæði í vinnu og einkalífi. Hún skilaði sínu hreinu og góðu gagnvart fólkinu sínu og þeim, sem hún þjónaði í vinnu sinni. Hún var björg fólki og í lífi.

Ævistiklur og fjölskylda

Björg  Björgvinssdóttir fæddist í Garðhúsum í Njarðvík  10. sept árið 1935. Foreldrar hennar voru, hjónin Jóhanna Sigríður Jónsdóttir og Magnús Björgvin Magnússon. Björg var önnur í röð fimm alsystra. Elst er Katrín, sem fæddist árið 1932 og hún er látin. Á eftir Björgu fæddist Theodora árið 1937. Kristín Ólöf var sú fjórða og fæddist ári síðar og Jónína Valgerður fæddist árið 1943. Sammæðra eru svo Magnús, sem lést ungur og Jóhann – báðir Snjólfssynir. Katrín er látin og nú eru tvær systur farnar yfir móðuna miklu.

Björg ólst upp í foreldrahúsum til 17 ára aldurs. Auk barnaskóla sótti hún einnig kvöldskóla KFUM. Hún fór til Danmerkur og kynntist þar mannsefni sínu. Árið 1954 gekk Björg að eiga Guðmund Einar Guðjónsson, kafara og kortagerðarmann. Þær Katrín systir Bjargar gengu í hjonaband í sömu athöfninni og dagurinn var því stór dagur í lífi fjölskyldunnar. Guðmundur lést í sjóslysi í mars árið 1980 ásamt syni þeirra Bjargar, Magnúsi Rafni. Björg og Guðmundur eignuðust þrjú börn og eiga orðið samtals 16 afkomendur.  

  1. Guðjón Rafn fæddist árið 1955. Hann býr í Bandaríkjunum og á þrjú börn, Björgu Rós, Kristine og Erik. Börn Bjargar Rósar og Abdul manns hennar eru Ísak og Aron.
  2. Magnús Rafn fæddist þeim Bjögu og Guðmundi árið 1959. Hann átti dótturina Hildi Þóru, sem er gift Halldóri Gunnlaugssyni. Börn Hildar eru Magnús Hólm Freysson, Brynjar Þór og Súsanna Guðlaug. Magnús Rafn lést í hinu voveiflega slysi 1980.
  3. Guðrún er þriðja barn Bjargar og Guðmundar og fæddist undir jól árið 1962. Hennar maður er Ólafur Þ. Jónsson og eiga þau tvö börn, Arndísi Helgu og Magnús Einar. Maður Arndísar Helgu er Gunnbjörn Sigfússon og þau eiga börnin Gabríel Arnar og Emilíönnu Guðrúnu.

Vinna og störf

Auk heimilis- og uppeldisstarfanna vann Björg alla tíð mikið utan heimilis. Fyrst við skúringar og þrif hjá Vitamálastofnun. En síðan stofnsetti hún, ásamt manni sínum, efnalaug í Starmýri og hét Hreinn. Þegar reksturinn styrktist bættu þau við annarri efnalaug í Hólagarði í Breiðholti. Svo var í fyllingu tímans eldri efnalauginni lokað. Björg sá um reksturinn, en eftir að Guðmundur fórst söðlaði hún um og seldi fyrirtæki sitt.

Þá hóf hún skrifstofustörf hjá Lögreglustjóraembættinu í Reykjavík í þrjú ár eða til ársins 1985. Þá lágu saman leiðir Bjargar og seinni manns hennar, Jóhanns Þorsteinssonar. Þau vissu af hvoru öðru frá æsku því þau bjuggu um tíma í sama húsi við Bogahlíð. Og þar kynntust þau að nýju og hófu sambúð og gengu síðar í hjónaband.

Þau stofnuðu saman og byggðu Bílaþvottastöðina “Laugina” við Vatnagarða (Holtagarða) árið 1985 og ráku hana til ársins 1995. Eftir að þau seldu þá stöð stofnuðu þau fyrirtæki með bað- og rafmagnsvörur. Fyrirtækið hét Laugin ehf. og voru þau Björg brautryðjendur á sínu sviði hér á landi. Í þrjú ár bjuggu þau Björg og Jóhann í Danmörk, Þýskalandi og Englandi vegna hins fjölþjóðlega fyrirtækjareksturs þeirra, en fluttu síðan heim fyrir aldamótin og héldu áfram rekstri til 2005. Björg var alla tíð verkfús og vinnusöm og gekk í öll störf og féll aldrei verk úr hendi.

Eigindir

Hvernig var hún Björg? Hvaða minningar vakna í huga þér? Hvað skemmti henni, hvað þótti henni gaman? Fólkinu hennar ber saman um, að hún var einstaklega góð. Hún var sáttfús og friðfytjandi. Hún vildi engar útistöður. Hún var tillitssöm, varfærin og skapgóð. Var heil í öllu sem hún gerði, studdi þau sem hún gat. Hún lagði mikið á sig, vann frekar verkin sjálf fremur en leggja byrðar á aðra.

Björg var jafnan kát og glöð. Henni þótti gaman að dansa, ekki síst gömlu dansana. Það var músík í fjölskyldu hennar og hún hafði gaman af söng. Systurnar sungu gjarnan saman. Þegar þær komu saman voru gítarar með í för og svo var byrjað að syngja. Og músíkin heillaði Björgu og hún fann sig alls staðar þar sem tónlist hljómaði, hvort sem það var í fjölskyldufagnaði eða í sveiflu á Bourbonstreet suður í New Orleans.

Hugðarefni Bjargar voru fjölskylda hennar og hún var félagslynd og naut mannfagnaðar. Systurnar voru samrýmdar, hittust og töluðu mikið saman. Björg var góð mamma og amma og fólkið hennar átti í henni trygga stoð, bæði hin eldri og yngri. Björg var vandvirk og vildi hafa allt í góðu lagi, snyrtilegt og hreinlegt. Vildi að fólkið hennar væri vel klætt. Hún var hannyrðakona eins og hennar fólk, saumaði stóla og myndir og prjónaði.

Trú

Enginn fer í gegnum lífið án áfalla og Björg varð fyrir hverju sjokkinu á fætur öðru á árunum 1979- 81. Þá urðu sex dauðsföll í fjölskyldunni sem rifu í hana, nánir ástvinir hennar dóu. Þegar ástvinir hverfa og eru rifnir úr fangi fólks slitnar margt og hyldýpin opnast. Eftir hina miklu dauðahrinu þessara ára breytti Björg um atvinnu og byrjaði nýtt líf. Hún var trúuð og hafði líka getu til að endurmeta trúarefni sín með tímanum. Alla tíð hafði hún sterka lífslöngun. Björg greindist með krabbamein í júní 2006 og fór í erfiða meðferð, sem stöðvaði gang sjúkdómsins þar til í oktober 2010, er meinið tók sig upp aftur og varð ekki við ráðið. Björg átti í sér bæði festu og lífsvilja til að vinna með sjúkdóm og þegar kom að leiðarlokum tjáði hún bæði börnum sínum og prestinum sínum að hún væri ekki hrædd. Hún var opin og þorði að hugsa um, að hún gæti hitt ástvini sína sem hún hafði misst.

Nú horfir þú á bak góðri konu sem var Björg sínu fólki og þeim sem hún þjónaði. Í trú megum við treysta björgun Guðs, að Björg er góðum höndum, í góðum faðmi eilífðar. Þar er ekki aðeins hrein tilvera heldur glaðværð, söngur, tónlist og fögnuður.

Guð geymi Björgu Björgvinsdóttur – Guð geymi þig.

Útför gerð frá Fossvogskirkju miðvikudaginn 15. febrúar, 2012.

Bálför – jarðsett í Fossvogskirkjugarði.