Ég sat við eldhúsborð úti í sveit og talaði við kjörmann í biskupskjöri. „Traust til kirkjunnar verður að byggja upp að nýju“ sagði viðmælandi minn og horfði í augu mér og sagði kirkjuna alla hafa mikið en gott verk að vinna. Við borð í kirkju á Skagaströnd var ég spurður: „Stendur þú í lappirnar?“ Það er hvetjandi að verða að svara svona brýnandi spurningu. Kirkjufólkið í landinu vill að kirkjukreppu linni og hafist verði handa við uppbyggingu. Traustið þarf að endurvekja. Páskar og vor eru á næsta leiti.
Þjóðkirkjan er ekki pýramídi með preláta og biskup á toppnum, heldur hreyfing fólks um allt land, inn til dala og út til nesja. Kirkjan er farvegur fagnaðarboðskapar. Kirkjan verður til þegar fólk kemur saman á hátíðum og við krossgötur lífsins og fagnar því að lífið lifir og sigrar. Guð elskar og kallar fram líf úr dauða og sá boðskapur varðar einstaklinga, kirkju og heim.
Ég hef hitt kirkjufólk um allt land síðustu vikur. Ég hef hlustað á merkilegar sögur, notið gestrisni og hlustað á óskir um að kirkjan lifi fallega og vel. Ég hef orðið vitni að þjónustulund framar skyldu við safnaðarlífið og kirkjuhúsin. Og alls staðar er tjáð sama löngun, að kirkjan fái frið til að starfa og eflingar.
Vorverk kirkjunnar felast ekki síst í því að virkja fólk út um allt land, sem vill láta gott af sér leiða í samfélaginu og vera málsvarar gæsku og réttlætis. En þetta fólk á líka að fá að hafa áhrif á stefnu og stjórn kirkjunnar. Valdefling er mikilvæg í kirkjunni. Kirkjan dafnar þegar eining og samhugur fær að móta orð og verk. Nýr biskup hefur vorverkum að sinna.
Kirkjan er kölluð til þjónustu við heiminn og spennandi tímar eru framundan. Prestar, djáknar, söfnuðir og þjóðkirkjan eru tilbúin undir breytingar og grósku í fjölbreytilegum samtíma. Hlúa þarf að barna- og æskulýðsstarfinu í kirkjunni eins og öðru kirkjustarfi, meta mannauð og efla starfsfólk og tryggja fjármagn til góðra verka um allt land.
Verkefnin eru mörg. Þau krefjast samstöðu og einingar. Kirkjan er farvegur möguleikanna og nú er tími tækifæranna. Ég býð fram til þjónustu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. apríl 2012