Alger munur er á fyrri umferð í biskupsvali og hinni seinni. Almenn kynning á biskupsefnum fór fram áður en kosið var í fyrri umferð. Fyrra valið var eins konar forval. Fjöldi biskupsefna og eðli forvals varð til, að kynningar náðu þó ekki ákjósanlegri dýpt. Nú er seinni umferð að hefjast, en þó er enginn almennur fundur til kynningar.
Í fyrri umferð var nálgun kjörmanna almenn og ljóst að ekki yrði kosið til úrslita í þeirri umferð. Í seinni umferð velja kjörmenn milli tveggja. Kjörmenn hefðu því þurft gott samtal með ítarlegum svörum og á dýptina. Í ljósi þess hef ég lagt mig eftir að svara spurningum kjörmanna og fréttamanna. Kjörmenn vanda val sitt og biskupsefni virðir þær þarfir.
Fyrri umferðin var á breiddina en seinni umferðin ætti að vera á dýptina. “Djúp og breið” syngjum við í kirkjunni. Í kirkjukosningum þarf líka að vera dýpt og breidd.