Biskupskosningar í seinni umferð
Nú verður kosið á milli tveggja frambjóðenda í biskupskjöri í seinni umferð og eftir miðjan apríl kemur í ljós hver hefur verið valinn til þjónustunnar. Við hjónin styðjum dr. Sigurð Árna Þórðarson til embættis.
Eitt það fyrsta sem maður nemur í návist Sigurðar Árna er það að hann er listfengur maður og hefur auga fyrir því fagra. Sá sem getur verið á valdi listarinnar hefur líka djúpan anda. Sigurður Árni hefur ekki bara auga fyrir tónum, orðum og litum heldur ber hann ekki síður skyn á litbrigði mannlífsins og honum er eðlislægt að sjá hið einstaka í fari þess sem hann mætir. Það er gott að vera nálægt Sigurði Árna því hann hefur áhuga fyrir því sem fólk hefur fram að færa og þegar hann tekur orðið í hópi fólks gerir hann það augljóslega til þess að varpa því aftur út í hópinn og leyfa hugmyndunum að taka á sig form. Allir sem þekkja Sigurð Árna þekkja hann af samtalinu, hlustuninni og velviljanum. Þess vegna vitum við að hann verður ekki leiðtogi sem einangrast með eigin hugsanir og hugmyndir heldur er hann leiðtogi sem alltaf er að læra.
Biskupsembættið er sterk táknmynd fyrir kirkjuna í landinu. Sá sem er biskup ber embættið á persónu sinni. Við höfum átt langa samleið með sr. Sigurði Árna og við vitum af reynslu að hann er opinn fyrir nútímanum.
Í persónu Sigurðar Árna sameinast ýmsir ólíkir pólar:
Þótt hann kunni manna best að hvíla í hefðinni og sinni hinu hefðbundna prestshlutverki þá vill hann um fram allt þekkja samtíð sína og horfa til framtíðar.
Undir fáguðu og hlýlegu viðmóti býr óþol í sr. Sigurði Árna. Óþol gagnvart ójafnrétti og hvers kyns þvingunarvaldi.
Hann á rætur í leikmannahreyfingu kirkjunnar og hefur alla tíð átt þá þrá að sjá barna- og unglingastarf kirkjunnar blómstra en um leið er hann doktor í trúfræði með áherslu á íslenska menningu.
Hefðbundinn kristindómur liggur sr. Sigurði Árna við hjartastað en einmitt vegna þess að Jesús Guðspjallanna er vinur hans hefur hann þróað með sér víðsýna og milda lífsafstöðu.
Sigurður Árni hefur lifað mikla reynslu bæði í starfi og einkalífi og hver sem kemur inn á heimili þeirra hjóna, Elínar Sigrúnar Jónsdóttur og Sigurðar Árna, finnur að undir þaki þeirra býr hamingja. Sigurður og Elín eru jafningjar og samherjar sem varpa ljósi hvort á annað.
Við berum þá von í brjósti að Sigurður Árni Þórðarson verði næsti biskup Íslands.
Birt á: http://hjonablogg.eyjan.is/2012/03/biskupskosningar-i-seinni-umfer.html