“Hvað, hefur þú tíma til að vera hér í kvöld? Á ekki að telja á morgun?” Já, við Elín, kona mín, vorum á dásamlegu námskeiði um Lúther og undirbúning ferðar á Lúthersslóðir síðar á árinu. Og rétt áður en talið verður í biskupskjöri er heilsusamlegt að núllstilla og hugsa um eðli siðbótar og þjónustu kirkjunnar í sögu og samtíð. 2017 nálgast og ég er tilbúin til að vinna að því að kirkjan verði kirkja bóta og góðs siðar, hvernig sem á mál verður litið.
“Og hvernig líður þér?” var ég spurður í kvöld. Og mér líður ágætlega. Biskupskjör er ekki grískur harmleikur með eingöngu vondum kostum. Biskupskjör er fremur gleðimál með góðum kostum. Alla vega lít ég svo á, að hvað sem kemur út úr kjörinu hafi ég lært mikið, upplifað margt jákvætt og orðið svo margs vísari að ég komi út í stórkostlegum plús – óháð atkvæðamagni og útkomu kosningar. Ég hef notið fræðslu og blessunar í þessu kosningaferli. Þessar liðnu vikur hafa orðið mér ríkulegur tími, bæði persónulega og líka sem þjóni kirkjunnar og kirkjuþingsmanni. Ég hef fengið dýpri og betri skilning á þörfum kirkjunnar í landinu, afstöðu fólks, þörfum safnaða og hverju þurfi að breyta og hvað þurfi að bæta. Kirkjuþingsmaðurinn í mér hefur skarpari sýn á hvað þurfi að gera og leggja til á kirkjuþingi. Og kirkjan, fólkið, prestarnir og söfnuðurnir eru búin undir breytingar. Nú er tími tækifæranna.
Ég hef hitt stórkostlegt fólk undanfarnar vikur, hlustað á stórmerkilegar sögur, notið gestrisni, hlustað á sterkar óskir um, að kirkjan lifi fallega og vel, orðið vitni að þjónustulund framar skyldu, hlotið fararblessun margra. Ég hef notið stuðnings og velvilja samverkafólks míns á kirkjuþingi og í kirkjuráði, í öllum prófastsdæmum, í nærsamfélagi og meðal vina og samverkafólks í Neskirkju. Ég hef fengið ótrúlega margar hringingar, gagnrýni sem ég er þakklátur fyrir, blóðríkar umsagnir fólks sem eru ekki minningargreinar heldur lífsyrðingar. Allt þetta hefur orðið til að skerpa og efla.
Ég þakka biskupsefnum, sem hafa verið mér samferða um landið, en þó mest fyrir elsku þeirra gagnvart kirkjunni. Svo hefur mér þótt elja stuðningsfólks míns ótrúleg og langvarandi kraftaverk. Fyrir hug þeirra og verk er ég þakklátur. Svo er ég þakklátur Elínu, konu minni fyrir staðfestu, kátínu og jafnlyndi hennar, sem aldrei bregst. Við höfum svo sannarlega notið ferða og fundanna. Það er ómetanlegt að geta notið sterkrar lífsreynslu saman. Svo hafa börnin mín verið mér traust stoð. Þau hafa verið óspör á hvatningu í “biskupakeppninni” eins og sex ára synir mínir hafa kallað undirbúning biskupskosningar.
Kæru kjörmenn: Takk, þið sem studduð mig. Við alla kjörmenn vil ég segja: Takk fyrir að þið kjósið í þágu kirkjunnar og vegna framtíðar hennar. Kirkjan er farvegur möguleikanna og nú er tími tækifæranna. Guð geymi ykkur.