Góður vinur minn Sigurður Árni hefur ákveðið að bjóða sig fram til biskupsþjónustu. Ég kynntist Sigurði Árna og Elínu eiginkonu hans fyrir 5 árum síðan, sem nágrönnum á Tómasarhaganum og foreldrum Ísaks og Jóns Kristjáns sem þá voru í leikskóla með syni mínum. Kunningsskapur varð að vináttu.
Þær eru ófáar stundirnar sem fjölskyldur okkar hafa eytt saman, heima fyrir og að heiman, og rætt um allt milli himins og jarðar, trúarbrögð, kreppu, fótbolta, siðferði, barnauppeldi, matargerð og önnur mikilvæg málefni. Þessar samverustundir hafa gefið mér góða mynd af manneskjunni Sigurði Árna, Elínu og börnunum. Sigurður Árni býr yfir þeim eiginleikum sem ég tel að biskup í nútímasamfélagi eigi að búa yfir. Hann er opinn, jákvæður, hlýr og gott ef ekki eilítið róttækur.
Það er deginum ljósara að þjóðkirkjan þarf að endurnýja sjálfsmynd sína þannig að hún endurspegli það nútímasamfélag sem hún er hluti af. Ef kirkjan hefur hug á að styrkja tengsl sín við þorra þjóðarinnar verður hún að vilja og þora að sækja fram á við með opnu hugarfari. Ég tel að Sigurður Árni hafi ekki bara viljann og þorið heldur einnig getuna til að leiða það verðuga verkefni.
Sigurður Árni lætur sig varða fólk og samfélag, hann er til staðar. Hann spyr áleitinni spurninga og einn ríkasti mannkostur hans er að hann hlustar. Að spyrja og hlusta er í mínum huga það sem á að standa efst á blaði í starfslýsingu verðandi biskups. Sigurður Árni lætur til sín taka þar sem þess er þörf og ber þátttaka hans í samfélagsumræðunni þess glöggt vitni. Hann er í góðu jarðsambandi sem verður að teljast ótvíræður kostur hjá kirkjunnar manni.
Ég veit að Sigurður Árni er reiðubúinn til þess að takast á við þau krefjandi verkefni sem kirkjan á Íslandi stendur frammi fyrir. Ég vona að kirkjan sé reiðubúin fyrir Sigurð Árna.