Það er jákvætt skref að sr. Sigurður Árni Þórðarson hefur gefið kost á sér í biskupskjöri 2012. Það er líka svo margt jákvætt við manninn Sigurð Árna. Við hjónin höfum kynnst því vel af eigin raun að hann er mörgum góðum kostum búinn til starfa fyrir kristni í landinu. Góðir leiðtogahæfileikar, samfara sjálfsgagnrýni, hógværð og næmni á annað fólk og líðan þess. Hann hefur fjölþætta reynslu af starfi fyrir kristnina í sveit og borg og í stofnunum kirkjunnar, og hefur farnast vel á þeim vettvangi.
Sigurður er maður sem lætur mann finnast að það sé hlustað á mann, og við erum þeirrar skoðunar að hann eigi erindi í þetta embætti. Við höfum oft séð að hann á auðvelt með að hafa frumkvæði, laðar fólk til samstarfs og uppbyggilegra verka og hlúir að því sem horfir til góðs í umhverfinu, bæði með uppörvun og bæn.
Við makamissi, sem við bæði höfum gengið í gegnum, var hann annar þeirra presta sem leitað var til, og vó þar þyngst sú nærgætni í samfylgd sem honum hafði tekist að sýna sem vinur í reynd. Að öllum öðrum ólöstuðum, sem við erum þakklát fyrir. Þá liðveislu leysti hann vel af hendi og gerir enn, að segja má.
Makinn hefur líka stórt hlutverk í þessu embætti, og þar er Elín Sigrún Jónsdóttir valin kona í sessi. Mannkostamanneskja og full af gleði og áhuga á því sem hún vinnur að. Fylgin sér í þeim verkum sem hún tekur sér fyrir hendur.
Nú höfum við hlaðið miklu lofi á þau hjón, en enn má bæta við og benda á þau eru góðir gestgjafar og afbrags kokkar. Hefur Nessöfnuður og fleiri fengið að njóta þess með svokölluðum Biblíumáltíðum, sem þau hafa boðið til í safnaðarheimili kirkjunnar. Þetta er nefnt sem dæmigert framtak og lýsandi fyrir það sem að ofan er sagt. Við viljum að sr. Sigurður Árni verði næsti biskup.