Sigurði Árna kynntist ég fyrst þegar hann tók sæti í stjórn Kirkjulistahátíðar sem fulltrúi biskups árið 2001. Hann kom strax fram með ferskar hugmyndir og var tilbúinn að gefa bæði tíma sinn og mikla vinnu í að þær gætu orðið að veruleika.
Á þeirri hátíð skipulagði hann Málþing um kirkjuarkitektúr ásamt Kristjáni Vali Ingólfssyni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Málþingið var tvískipt- Rýmið í kirkjunni og Íslenskar kirkjur í samtíð og sögu og var boðað til þingsins til að ræða gerð, tilgang og skipan kirkna og hönnun nýrra íslenskra kirkna. Þetta glæsilega málþing bauð upp á 13 fyrirlestra og var Arne Sæther, einn helsti ráðgjafi norsku þjóðkirkjunnar í kirkjuarkitektúr gestur hátíðarinnar. Sigurður Árni flutti sjálfur fyrirlestur undir yfirskriftinni Heilagur, heilagur en hvar?
Kirkjulistahátíð átti því láni að fagna að hafa Sigurð Árna aftur í framkvæmdastjórn hátíðarinnar 2003 og settu hugmyndir Sigurðar Árna sterkan svip á þá hátíð.
Hæst stendur hin metnaðarfulla dagskrá Passíusálma+, sem Sigurður Árni skipulagði og hafðí umsjón með. Þar fékk hann 15 íslensk ljóðskáld til að yrkja í framhaldi eða til hliðar við Passíusálma Hallgríms Péturssonar, en hugleiðingar um gildi sálmanna og lífsmátt þeirra í samtíð okkar var aðalviðfangsefni skáldanna. Eftirfarandi skáld tóku þátt í Passíusálma+ og fluttu eigin ljóð: Matthías Johannessen, Sigurbjörg Þrastardóttir, Hjörtur Pálsson, Baldur Óskarsson, Kristján Valur Ingólfsson, Andri Snær Magnason, Þórarinn Eldjárn, Vilborg Dagbjartsdóttir, Sigurður Pálsson, Þóra Jónsdóttir, Jón Bjarman, Ísak Harðarson, Margrét Lóa Jónsdóttir, Kristján Þórður Hrafnsson og Ingibjörg Haraldsdóttir.
Passíusálma+ féll í svo góðan jarðveg, að dagskráin var endurtekin á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju ári síðar og hefur verið rætt um að gefa ljóðin út síðar.
Annar stór dagskrárliður á Kirkjulistahátíð 2003 naut góðs af hugmyndaauðgi Sigurðar Árna, þegar hann tók þátt í að skipuleggja málþingið Trúlega Bergman, sem haldið var í samvinnu við Deus ex cinema og Kvikmyndasafn Íslands. Trúlega Bergman dagskráín var þrískipt, þar sem rætt var um trúarstef í kvikmyndum Ingmars Bergmans og kvikmyndir hans sýndar, en fyrirlesarinn Maarit Koskinen, einn frægasti Bergmanfræðingur heims var heiðursgestur málþingsins. Sigurður Árni var þar meðal umræðustjóra málþingsins, sem tókst afar vel.
Þá kom Sigurður Árni einnig með ferskan blæ inn í tónlistarandaktir hátíðarinnar.
Frábærir skipulagshæfileikar og smitandi áhugi Sigurðar Árna réðu miklu um hve vel tókst að koma metnaðarfullum hugmyndum í framkvæmd. Hjónin Elín Sigrún og Sigurður veittu hátíðinni ómetanlegan stuðning með óeigingjörnu vinnuframlagi, metnaði fyrir hönd hátíðarinnar, víðsýni, gleði og uppörvun til allra sem tóku þátt. Ánægjulegt samstarf við Sigurð Árna fyrir Kirkjulistahátíð lagði grunn að vináttu sem styrkst hefur með ári hverju.
Það er trú mín að íslenska þjóðkirkjan eigi eftir að ganga inn í vor endurnýjunar undir styrkri handleiðslu Sigurðar Árna í starfi Biskups Íslands.