Ég varð afskaplega glöð þegar ég heyrði af framboði dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar til biskups og varð að orði að það væri besti kostur sem ég gæti hugsað mér. Ástæða þess er viðsýni hans, fordómaleysi, hlýja og gáfur. Þetta skynjar maður sterkt strax við fyrstu viðkynningu. Gæska, en jafnframt virðuleiki, streymir frá manninum.
Ég kynntist Sigurði Árna persónulega er hann annaðist útför föður míns, prófessor Ármanns Snævarr, en það var ósk hans að Sigurður Árni fylgdi sér síðasta spölin og héldi utan um hópinn sinn við þær erfiðu aðstæður. Voru þeir vinir góðir og ríkti gagnkvæm virðing þeirra á milli, þrátt fyrir all nokkurn aldursmun. Varð Sigurður við þeirri beiðni þrátt fyrir að vera í námsleyfi á þessum tíma. Allir sem viðstaddir voru athöfnina höfðu á orði hversu ljúfmannlega, fallega en jafnframt virðulega presturinn kvaddi hinn látna og veitti styrk þeim sem syrgðu.
Fjölskyldunni reyndist hann einstaklega vel undir þessum kringumstæðum. Sjálf átti ég erfitt í sorg minni og leitaði ítrekað til hans – stuðningur hans var mér ómetanlegur og ég tel mig hafa kynnst kostum hans afar vel á þessum tíma.
Það er mín bjargfasta trú að íslenska þjóðin þurfi mann eins og Sigurð Árna í forystusveit, mann sem hefur þá eiginleika til að bera sem hann hefur. Kirkjan á að koma inn sem sterkur aðili til uppbyggingar þjóðarinnar á erfiðum tímum og þá þarf nýja menn, með nýja hugsun – framsýni, víðsýni og fordómaleysi að leiðarljósi. Ég er sannfærð um að dr. Sigurður Árni er sá maður og get tekið undir hvert orð í stefnuskrá hans í tilefni biskupskjörs.