Ég kynntist dr. Sigurði Árna Þórðarsyni fyrir 6 árum þegar ég hóf störf í Neskirkju við Hagatorg. Sigurður Árni hefur á þessum árum verið mér fyrirmynd í starfi, uppspretta fræða, náinn vinur og öflugur hvetjandi leiðtogi. Á okkar fyrsta fundi fór Sigurður að hrósa mér fyrir bjart yfirbragð og hláturmildi og man ég að viðbrögð mín við hóli hans voru blendin. Mér þótti hálft í hvoru óþægilegt að vera hrósað á þennan hátt en leyfði mér að trúa einlægni orða hans. Mér hefur lærst af samstarfi okkar og vináttu að þessi fyrstu viðbrögð Sigurðar, að draga fram það jákvæða í mínu fari og nefna það, eru honum eðlislæg. Leiðtogastíll Sigurðar Árna felst í því að hlusta á og greina fólkið sem er honum samferða, að laða fram það besta í samstarfsfólki sínu með því að lyfta upp kostum þeirra og hjálpa því að láta galla sína ekki þvælast fyrir.
Ég tel að dr. Sigurður Árni sé kallaður til að verða biskup íslensku þjóðkirkjunnar. Sú sannfæring mín byggir á mörgum þáttum en ég vil draga fram þrennt sem ég tel að muni verða kirkju og þjóð til heilla.
Framsýnn.
Sigurður Árni er framsýnn leiðtogi. Hugmyndir hans um framtíð kirkjunnar byggja á mannvirðingu og elsku. Hann hefur djúpan skilning á því að framtíð þjóðkirkjunnar veltur á því hvernig kirkjan sinnir börnum, unglingum og ungum fjölskyldum. Öflugt æskulýðsstarf og barnakórastarf dregur fjölskyldur til kirkjunnar og kallar ungt fólk til að láta sig kirkjuna varða. Sem biskup mun Sigurður Árni reynast málsvari æskulýðsstarfs innan kirkjunnar. ,,Til að kirkjan eigi sér framtíð þarf æskulýðsstarf að vera forgangsstarf þjóðkirkjunnar (SÁÞ)“
Fræðimaður.
Dr. Sigurður Árni er mikilsvirtur fræðimaður á sviði guðfræði, öflugur greinandi og framúrskarandi fræðari. Aukið menntunarstig þjóðarinnar kallar á að fyrir kirkjunni fari maður sem hafi getu til og áhuga á að fjalla um guðfræði og samfélag á öllum sviðum umræðu. Kirkja og háskóli eiga samleið og til að kirkjan geti átt í öflugu og lifandi samstarfi við háskólasamfélagið þarf kirkjan á fræðimanni að halda. Sem guðfræðingur er dr. Sigurður Árni óhræddur við að takast á við ögranir nútímafræða og óþreytandi í að draga fram það besta sem íslensk kirkjuhefð hefur fram að færa.
Fráskilinn.
Sem sálgætir og prestur nálgast Sigurður Árni fólk af djúpstæðri visku. Viska hans er sprottinn af þeirri eftirsóknarverðu reynslu að hafa unnið sig farsællega úr vonbrigðum og áföllum lífsins. Sigurður Árni ber ekki yfirbragð þess sem aldrei hefur reynt erfiðleika og leyfir sér því að setja sjálfan sig á háan hest gagnvart öðrum. Þvert á móti mætir hann fólki í erfiðum aðstæðum sem jafningi og vinur og vinnur starf sitt af mikilli fagmennsku. Það hef ég sjálfur reynt og orðið margoft vitni að á okkar vinnustað.
Þau hjón, Elín Sigrún og Sigurður, eiga fallegt heimili og þar eru gestir umvafðir hlýju og kærleika. Heimilið ber þeirra fegurstu kostum vitni. Fuglafóður og ávaxtatré í garðinum bera vott um djúpa virðingu fyrir náttúru og umhverfisvernd, listaverk þeirra og bækur veita innsýn í menningarþorsta, leikföng á stangli sýna að þar er rými fyrir börn og gestrisni þeirra endurspeglar sanna mannelsku.
Ég styð dr. Sigurð Árna Þórðarson til biskupsþjónustu.