Ég var spurður um bænalíf og það varðar trúar-afstöðu og túlkun. Trúarlíf og bænalíf varða það sama. Guð varð mér altækur veruleiki á unga aldri. Þar er trúarafstaðan, en þar sem Guð er mér umfaðmandi Guð lifi ég og hrærist í þeim veruleika á öllum stundum og í öllu sem ég er og geri. Lífið er mér bænalíf og bænalífið greinist í ýmsa þætti. Bænalíf er ekki aðeins það að bera fram beiðni til Guðs eða tjá tilbeiðslu í orðum heldur líka það að upplifa, nema, lifa – allt sem er verður trúmanninum þáttur í bænalífi. Þegar Guð er umlykjandi veruleiki verður lífið þar með bænalíf.
