Gunnar Sandholt, félagsmálastjóri

Við sem látum okkur annt um kirkjuna lítum nú til þess að tímar endurnýjunar eru framundan.  Kirkjan mun á næstunni velja sér biskup til forystu. Einvalalið lærðra og leikra hefur kosningarrétt , m.a. formenn sóknarnefnda sem fulltrúar okkar óbreyttra kirkjugesta, prestar og ýmsir aðrir starfsmenn kirkjunnar.

Við sem ekki erum á kjörskrá ættum samt að láta okkur málið varða, taka málefnalega afstöðu til frambjóðenda og segja kjörmönnunum okkar hug.

Sigurður Árni Þórðarson er sprenglærður í guðfræði og heimspeki, víðsýnn og vel að sér, málefnalegur og hneigður til samræðu frekar en kappræðu, með skemmtilegri ræðumönnum og góður sálusorgari. Hann hefur fitjað upp á margvíslegum nýjungum sem sóknarprestur og beitt sér fyrir breyttum starfsháttum kirkjunnar. Þeir sem vilja geta gengið úr skugga um ég fer ekki með neitt fleipur með því að lesa pistla hans í Fréttablaðinu og ýmis skrif hans á heimasíðu kirkjunnar.  Honum er lagið að gera flókna hluti einfalda og hefur þann kost að setja hugsun sína fram á mannamáli. Hann  hefur einnig verið í hópi guðfræðinga sem mjög hafa látið þjófélagsmál til sín taka í kjölfar bankahrunsins. Hann hefur einnig látið framtíð kirkjuskipunarinnar til sín taka og verið skeleggur fulltrúi á kirkjuþingi.

Gunnar M .Sandholt
Sauðárkróki