“Er einhvern tíma bakkað þegar menn hafa gert mistök?” Þessi spurning kom upp á einum fundi með kjörmönnum nú í vikunni. Við ræddum m.a. fækkun prófastsdæma á Suðurlandi. Þar hefur þremur prófastsdæmum verið skellt saman í eitt stórt.
Á fundum á Suðurlandi síðustu daga hefur margt merkilegt komið fram. Mér hefur orðið betur ljóst, að skipulagsbreytingar í kirkjunni síðustu ár hafa kannski ekki heppnast sem skyldi. Hvernig getur prófastur stýrt starfi á svæði, sem nær vestan frá Reykjanesi og austur fyrir Höfn í Hornafirði? Raunar þyrfti sá prófastur að vera losaður undan sóknarprestsstarfi. En svo er ekki á Suðurlandi né í öðrum prófastsdæmum. Og ég spyr hvort ekki þurfi þor og þrek til að bakka með skipulagsbreytingar sem ekki skila sem skyldi.
Framundan er að meta nýtt frumvarp um þjóðkirkjulög. Frumvarpið verður lagt fyrir prestastefnu í sumar og síðan kirkjuþing í haust. Í tengslum við það þarf að ræða, ákvarða og móta starfsreglur um skipulag kirkjunnar. Samstarfssvæði er einn angi þessa stóra máls. Skilgreina þarf stöðu vígslubiskupa betur en hefur verið gert og efla stöðu þeirra. Staða biskupsembættisins er einnig í mótun og létta þarf af biskupi ýmsum störfum við framkvæmdastjórn kirkjunnar. Störf og stöðu prófasta þarf að endurskilgreina, stærð og rekstur prófastsdæma. Og það er ekki sjálfgefið að ef vígslubiskupar eru efldir rýrni hlutverk prófasta eða öfugt. Prófastar mega gjarnan eflast sem verkstjórar að skandinavískri mynd og vígslubiskupar eiga vera fullvirkir tilsjónarmenn í kirkjunni.
Þorum við að skoða og endurskoða breytingar? Árangursmat þarf að verða eðlilegur þáttur í lífi og starfi kirkjunnar. Þegar reynsla er komin af nýjum starfsreglum þarf að meta gildi og árangur. Kirkjuþing hefur sýnt að það þorir að endurskoða strax ákvarðanir sínar þegar gallar koma í ljós.
Ég heyri að Sunnlendingar vilji opinskáar umræður um skipulagsgalla og breytingar. Þegar mistök hafa verið gerð er betra að bakka en þrjóskast við og spóla.