Um allt land hugsar fólk sinn gang og íhugar hver henti í biskupsþjónustu. Það er undursamlegt, að fólk tekur hlutverk sitt bæði alvarlega og leitar umsagna til að geta metið sem best. Mannval er í boði. Tíminn fram að biskupskjöri er tími kirkjunnar. Umræður verða miklar í héraði og í fjölmiðlum þjóðarinnar. Og það er í þágu kirkjunnar, að hún verði sem best.
Svo hringir síminn. “Blessaður. Ég hef ákveðið að kjósa þig í biskupskjörinu.” Ég þakkaði og spurði hvað hefði ráðið. Minnt var á leiðtoga- og stjórnunarhæfni, mikilvægi þess að leiða fólk til sátta, að menntun hentaði kirkjunni, prédikun og beinlínusambandið til Guðs. Þessi óvænti stuðningur gladdi mig.
Mál eru rædd, fólk tekur ákvarðanir, tjáir þær. Hvað eflir Krist, hvað er í þágu trúar, vonar og kærleika? Við verðum öll að glíma við þær spurningar og reyna að meta hvernig við getum þjónað sem best.