Drengir mínir voru saddir, glaðir og vel nærðir andlega þegar þeir teygðu úr sér í rúmum sínum. Svo var rætt um daginn og veginn, skólamál, allt þetta sem verður á viðburðaríkum tíma frá morgni til kvölds. Svo hófst bænagerðin með Faðir vori, sálmasöng og litlir menn töluðu við Guð. “Kæri Guð. Þakka þér fyrir þennan yndislega dag. Og takk fyrir lífið.”
Þetta er að lifa í góðu samhengi, sem gefur traust, tengsl, vitund og stefnu. Og lífsástin er dásamleg. Drengirnir tjáðu með bæn sinni einnig mína eigin upplifun. Dagurinn var yndislegur og það er svo þakkarvert að fá að lifa, fagna, elska og hefja höfuð mót hækkandi sól.
Þennan dag talaði ég við marga, sem sögðu mér margt og merkilegt. Kjörskrá var lögð fram og hún er spennandi. Ég gladdist yfir mörgu, m.a. að kynjahlutföllin voru mun jafnari í hóp kjörmanna en ég átti von á. Margt gott að gerast í kirkjunni.
Merkilegur dagur að kvöldi kominn: “Kæri Guð. Þakka þér fyrir þennan yndislega dag. Og takk fyrir lífið.”