Hagsmunatengsl

Hver eru hagsmunatengsl þín?

Ég er ekki meðlimur í neinum stjórnmálaflokki og hef aldrei verið. Sama gildir einnig um konu mína og fjölskyldufólk. Mér vitanlega á mitt nánasta tengslafólk engra sérstakra fjárhagslegra, félagslegra eða pólitískra hagsmuna að gæta umfram það sem almenningur í landinu á. Ég á engin hlutabréf í fyrirtækjum né stunda fyrirtækjarekstur af nokkru tagi. Fjárhagsstaða mín og fjölskyldu minnar er í góðu jafnvægi og getur ekki haft nein áhrif á skoðanir eða ákvarðanir mínar.

Vegna fjölbreytilegra og krefjandi prestsstarfa og að ég er faðir ungra barna hef ég dregið úr félagsstörfum síðustu árin og ég hef ekki viljað gegna stjórnarstörfum af þeim sökum. Ég set fjölskyldulíf og þátttöku mína í uppeldi og heimilislífi í forgang og vil vera börnum mínum góður faðir.

Yfirlit um stjórnarstörf  í félögum er hægt sjá í ferilskrá minni, sem birt er á þessari síðu. Félagar á unglingsárum verða oft ævifélagar. Ég á enn marga vini, sem ég kynntist á mótunarárum. Eftir skólaveru í Melaskóla og Hagaskóla fór ég í MR. Menntaskólaárin voru dásamleg og bekkjarfélagar mínir eru góðir kunningjar þó okkur hafi ekki lánast að búa til bridge- eða matarklúbb. í Kristilegum Skólasamtökum eignaðist ég ýmsa vini líka. Þá urðu félagar mínir í Háskóla að kunningjum og vinum. En tengsl við allt þetta fólk er algerlega persónulegt og óháð fjármunum, pólitík og lífsskoðunum.

Ég styð Hjálparstarf kirkjunnar og starf íslenskra kristniboðsfélaga í Austur Afríku. Sem barn og unglingur sótti ég fundi í KFUM og hef síðan verið félagi í því félagi. Ég er stuðningsmaður KR. Einnig er ég félagi í Ferðafélagi Íslands og í Garðyrkjufélaginu. Ég hef mikinn áhuga á trjárækt, garðrækt og stunda ræktun af kappi og er félagi í Ávaxtaklúbbi Garðyrkjufélagsins. Ég hollvinur Guðfræði- og trúarbragðadeildar og er áhugamaður um velferð Háskóla Íslands. Og einnig hef ég verið félagi í merkilegustu guðfræðisamtökum heims, American Academy of Religion og oft sótt ársfundi þeirra samtaka, enda er þar kynnt það sem nýjast er í rannsóknum á sviðum guðfræðinnar.

Hver eru þá hagsmunatengsl mín? Svar mitt er einfalt. Ég er án hagsmunatengsla og óháður pólitískum, fjárhagslegum og menningarlegum félögum og samtökum öðrum en þeim sem stunda ræktun manna og gróðurs. Af þeim eru kirkjan – og samtök henni tengd – þau mikilvægustu.