Veistu ekki hver pabbi minn er?

Ég var einu sinni á næturvakt á tjaldsvæði þjóðgarðsins Þingvöllum. Hlutverk okkar starfsfólks var að tryggja næði og næturfrið. Í mörgum tjöldum voru ólæti þessa nótt og þurfti að hafa afskipti af mörgum gleðipinnum. Í flestum tilvikum var hægt að ræða málin og féll á ásættanlegur friður nema í einni tjaldþyrpingunni. Þar var vinahópur og forsprakkinn varð pirraður þegar kyrrðar var óskað. Honum var bent á að flestir tjaldbúar á svæðinu vildu sofa en hann espaðist bara. Hann kom ógnandi að mér og spurði hranalega með reiðiglampa í augum: „Veistu ekki hver ég er?” Þegar ég féll ekki flatur fyrir mikilfengleika tjaldbúans espaðist hann og hreytti út úr sér: „Veistu ekki hver pabbi minn er?” Lætin héldu áfram og ekki kyrrði í öllum tjöldum fyrr en undir morgun. Eitt af morgunverkum mínum var að hringja í pabbann þjóðþekkta. Hann brást vel við, kom austur og fór með sinn pilt. Sá var lúpulegur í morgunsólinni.

Þegar óróaseggurinn var fluttur suður sat ungur pabbi úti fyrir tjaldi sínu. Börn hans höfðu verið hrædd um nóttina og ég bað hann afsökunar á ónæðinu. Hann svaraði: „Hafðu engar áhyggjur. Þið hafið gert allt sem hægt var að gera. Þetta eru bara unglingar sem þurfa að reka sig á. Við höfum öll orðið að hlaupa af okkur hornin. Við bara sofum út í stað þess að fara á fætur kl. 7.”

Þessi pabbi varð þjóðþekktur líka. Ég minnist alltaf þeirra tveggja, ógnandi óróaseggsins og pabbans unga, þegar ég sé hann í sjónvarpinu. Siðferði er vissulega háð uppeldi en frægir pabbar auka hvorki réttindi fólks né minnka ábyrgð þess. Okkar er ábyrgðin en ekki pabba eða mömmu.

Charlie Kirk og Jesús Kristur

Til að botna í pólitík í Bandaríkjunum þessar vikurnar er þarft að bera saman boðskap Jesú Krists og erindi hins myrta Charlie Kirk. Kirk varð á síðustu árum talsmaður “kristinnar þjóðernishyggju“ í Bandaríkjunum. Hann boðaði að kristnir ættu að stjórna á öllum lykilsviðum samfélagsins: fjölskyldu, trúarsviðinu, menntun, fjölmiðlum, listum, viðskiptum og stjórnmálum. Hann skilgreindi verkefni sitt og hlutverk sem stríð gegn óvinum kristninnar á öllum sviðum mannlífs og þjóðlífs. Því varð Kirk svart-hvítur í tali og sumt af því sem hann sagði var harkalegt og jafnvel grimdarlegt.
Jesús gerði ástina að stefnuafstöðu sinni og sagði gjarnan: „Elskið óvini yðar.“ Hann sagði líka: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ Hann hafnaði að Guðs ríki yrði komið á með valdi eða ofbeldi. Honum var umhugað um hin fátæku, sjúku, börn og útlendinga og setti þau í forgang.
Jesús boðaði þjónustu, sjálfsafneitun og frið. Kirk boðaði yfirráð, vald og baráttu. Kirk og skoðanasystkni hans vestan hafs blönduðu saman trú og pólitík og hafa fjarlægst hinn upprunalega boðskap kristninnar. Jesús Kristur boðaði óvopnað ríki ástar og þjónustu en Kirk og lærisveinar hans valda- og menningarstríð í nafni kristni.
Hvort ætli þjóni fólki, þjóðfélögum, menningu, heimsbyggðinni, náttúrunni, lífríkinu betur – vald eða ást?

Arvo Pärt og hljóðbænirnar

Arvo Pärt fór eigin leið í lífinu og tónsmíðunum. Hann er einn af dýrlingunum mínum. Mér þykir hann vera andríkasta tónskáld síðustu áratuga. Bjöllustíllinn er einstakur, kyrrðin umvefjandi og áleitin, einfaldleikinn agaður og sláttur englavængja heyranlegur. Tónlistin opnar milli himins og jarðar, tíma og eilífðar. Fíngerðar breytingar í stefjavinnslunni magna kyrrð vitundar og í andstæðu við síbylju samtímans. Pärt-tónlistin er andstæða hávaða. Hún er eins og hljóðbæn – fámál en þrungin merkingu. Það er dásamlegt að syngja verk Arvo Pärts, sem hljóma best í ómhúsi eins og Hallgrímskirkju, en líka að hlusta á þau með opnu hjarta. Pärt er níræður og þessa dagana spila ég tónlist hans.

Nýfrjálshyggjan uggandi

Ég vaknaði með ugg í brjósti í morgun, hitaði mér kaffi í Bialetti-könnunni minni og settist niður hugsi með ilminn í nefinu.

Ég ólst upp í skugga braggahverfis hernámsáranna á Grímsstaðaholti og Kanar voru nágrannar. Þróun eftistríðsáranna vestra var eiginlega í golu bernskunnar. Ég valdi að sækja nám í Suðurríkjunum frekar en að vera í skólunum á Austurströndinni. Ég vildi kynnast þykku menningunni. Ég bjó í nokkur góð og merkileg mótunarár í Nashville. Þegar ég fór að ræða við félaga mína í skólanum vestra fullyrtu þeir að eftir óreiðu og hrylling seinni heimsstyrjaldar hefði margt verið gert til að þetta raðir og græða sárin. Ég sannfærðist um að mikill meirihluti Bandaríkjamanna styddi sígandi lukku, vildi góðan og eðlilegan hagvöxt, styddi félagslegt öryggi, vildi lina kynþáttahyggju og búa til samfélag sem nyti stöðugleika og þokkalegs jafnvægis. Vöxtur þarfnast jú fyrirsjáanlegrar festu. En svo tók nýfrjálshyggan við vestra.

Eftir 1970 fór efnahagslegt ójafnvægi að aukast í bandarísku samfélagi. Þar með gliðnuðu menningargjárnar að nýju, þessar sem reynt hafði verið að brúa. Og miklu máli skipti að áherslur stjórnmálanna breyttust. Heildarhyggjan linaðist og kannski brotnaði. Velsæld markaðarins varð aðalmál og áhugamál pólitíkusanna fremur en velsæld samfélagsheildarinnar. Hlutsýn kom í stað heildarsýnar. Starsýni í stað víðsýni. Vaxandi skuldsetning hélt uppi neyslunni. Fjölmiðlar breyttust, mörkuðu sér sérstöðu og áherslur einhæfðust. Þeir bjuggu svo til búblur, eigin málheima og gildaheima sem lokuðu fólk og hópa af frá öðrum og heildinni. Þessar búblur urðu gámar, aðgreindir frá öðrum pólitískum gámum. Samfélagslegar andstæður skerptust. Ég sá vel að fátæklingarnir voru fátækir og hve hin ríku voru ofurrík í Nashville. Og ég varð vitni að menningarátökum. Málsvarar hópa æfðu sig í ópum og deilum á skólalóðinni í Vanderbilt. Þau lærðu að vera hópur gegn öðrum hópum, hrópa slagorð yfir mörkin. Við-þið hugsunin skar í samfélagsvefinn og sleit þræði samheldninnar. Síðan hefur reiðin vaxið – stöðugt – og orðið mein samfélagsins, opnað leiðir fyrir lukkuriddarana og nýja gerð alræðissóknar í Bandaríkjunum. Og svo hrópa menn ekki bara milli gáma, heldur skjóta því byssueignin er ekki skilyrt, þ.e. bundin við andlegt heilbrigði.

Í MAGA-Trumphyggjunni er sannleikurinn neysluvara en ekki alvöru gildi. Á markaði má öllu breyta og “sannleikurinn” er því síbreytilegur. Gyðingar voru blórabögglar nasistanna en innflytjendur, hommar og trans hjá MAGA-liðunum. “Þau” eru ekki hluti af “okkur” – við ákveðum hvað verður um “þau” sem merkir að mennska þeirra er önnur en “okkar.” Á þeim má pönkast að vild. Manngildi er því ekki grunngildi skv. þessari nálgun. Í samfélagi nýfrjálshyggjunnar skapa markaðir, sundraðir fjölmiðlar og vaxandi ójöfnuður nýja gerð alræðisstefnu. Það er vond pólitík og hvorki góð til innflutnings né útflutnings – óháð tollum.

Stundum þarf maður bara að koma ugg í orð. Og kaffið hressir líka.

Jeríkókjúklingur með lauk, döðlum og granatepli

Sæta döðlunnar, mildur blaðlaukur og safaríkt granatepli kyssast í rétti sem minnir á Jeríkó.

Í 4Mós 11.5 segir frá hve ákaft Ísraelsmenn söknuðu lauks, hvítlauks og blaðlauk sem þeir nutu í Egyptalandi. Döðlur voru gjarnan kallaðar „brauð eyðimerkurinnar“ og voru helsti orkugjafi á ferðalögum (2Sam 6.19). Granatepli voru tákn lífs, frjósemi og blessunar (5Mós 8.8; 2Mós 28.33–34). Hér sameinast þessi þrjú hráefni í rétti með áhugaverðar bragðvíddir. Í unaðsborginni Jeríkó var hægt að elda svona mat og halda veislu.

Hráefni (fyrir 5 manns)

  • 15 kjúklingaleggir (Gallus gallus)
  • 2 rauðlaukar (Allium cepa), grófsaxaðir
  • 2 blaðlaukar (Allium porrum), þverskornir í þunnar sneiðar
  • 1 heill hvítlaukur (Allium sativum), klofinn í geira en óafhýddur
  • 2 stilkar sellerí (Apium graveolens) þverskornir í ca 1 cm búta
  • 2 msk ólífuolía (Olea europaea)
  • 4 lárviðarlauf (Laurus nobilis)
  • 1 msk fersk salvía (Salvia fruticosa) eða þurrkuð
  • 1 msk ferskt rósmarín (Salvia rosmarinus)
  • 1 tsk kúmmín (Cuminum cyminum)
  • ½ tsk kanill (Cinnamomum verum)
  • 6 döðlur (Phoenix dactylifera), saxaðar smátt eða maukaðar í soði
  • Safi og fræ úr 1 granatepli (Punica granatum)
  • ½ glas vatn + grænmetissoð (bygg- eða linsukraftur)
  • Maldonsalt eða gróft sjávarsalt
  • Nýmalaður svartur pipar

Aðferð

  1. Marínering: Kryddið kjúklinginn með salti, kúmmín, kanil og ólífuolíu. Látið liggja í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt.
  2. Grunnurinn: Steikið rauðlauk, blaðlauk og sellerí á pönnu þar til allt mýkist. Bætið hvítlauk og lárviðarlaufi út í.
  3. Steiking kjúklings: Brúnið kjúklingaleggina á heitri pönnu þar til húðin er gullin. Hellið grunninum yfir kjúklinginn. Og steikið áfram.
  4. Sósan: Maukið döðlur í vatni. Hellið öllu yfir kjúklinginn á pönnunni. Stráið salvíu og rósmaríni yfir. Notið þurrkað krydd ef ferskt er ekki til.
  5. Steiking: Látið réttinn malla á meðalhita á pönnunni í 45 mínútur. Gætið þess að vökvinn á pönnunni þorni ekki upp. Bætið vatni við ef þarf.

Berið fram á pönnunni: Dreifið granateplum yfir og skreytið með ferskri steinselju. Rétturinn er bestur með soðnu byggi og ósýrðu brauði sem dregur í sig ríkulegan sósukeim.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.