Umsögn um frumvarp um kílómetragjald

Hér að neðan er umsögn Aldins vegna frumvarps um kílómetragjald. Höfundar eru Danfríður Skarphéðinsdóttir, Helgi Jensson,  Magnús Jóhannesson, Stefán Einarsson  og Örn D. Jónsson. Aldin er viskubrunnur áhugafólks um loftslagsmál. Hópurinn hittist í safnaðarheimili Neskirkju einu sinni í mánuði. Umsögnin hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda. 

Efni: Umsögn Aldins, samtaka eldri aðgerðasinna gegn loftslagsvá, um frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki, 156 löggjafarþing 2025. Þingskjal 123 – 123. mál.

Til þess að uppfylla skuldbindingar Íslands gagnvart Loftslagssamningi Sameinuðu Þjóðanna þarf losun gróðurhúsalofttegunda, sem hluti af svokallaðri samfélagslosun, að dragast saman um 40% fram til ársins 2030 miðað við losunina eins og hún var árið 2005 (1). Stærsti hluti samfélagslosunarinnar, eða þriðjungur, er vegna vegasamgangna. Í stað samdráttar jókst þessi losun um 19,5% milli áranna 2005 og 2022. Það er alveg ljóst að ekki mun takast að uppfylla skuldbindingarnar nema með samdrætti í þessum stærsta þætti samfélagslosunarinnar og að það mun einungis takast með orkuskiptum í vegasamgöngum og breytingum á ferðamáta.

Það er hlutverk löggjafans að setja lög sem liðka fyrir og hvetja til þessara orkuskipta og breytinga. Loftslagsmarkmið þurfa því að gegnsýra löggjöf sem snýr að gjaldtöku á ökutæki þannig að hún virki sem hvatning til orkuskipta og breytinga.

Þær breytingar sem gengu í gildi í ársbyrjun 2024, með breyttum ívilnunum varðandi kaup á rafbílum og álagningu sérstaks vegagjalds seinkuðu orkuskiptum. Árið 2023 var hlutfall rafbíla í nýskráningum fólksbíla einstaklinga og fyrirtækja annarra en bílaleiga 71,7%, en á árinu 2024 hafði þetta hlutfall (t.o.m. nóvember) fallið niður í 44,1% (2). Með hækkun veggjalds rafbíla, sem fram kemur í frumvarpinu, er höggið öðru sinni í sama knérunn. Þessi boðaða hækkun á útgjöldum rafbílaeigenda mun auka hlutfallslega rekstrarkostnað rafbíla í samanburði við bíla sem ganga fyrir olíu eða bensíni. Ekki verður því annað séð en að boðuð breyting muni letja fremur en hvetja til kaupa á rafbílum. Hindrunin fyrir nauðsynlegum orkuskiptum er því sett á hærra stig. Aldin hvetur því til að fallið verði frá auknum álögum á rafbílaeigendur eða að álögur á bíla sem ganga fyrir olíu og bensíni verði auknar umtalsvert svo hagkvæmni orkuskipta verði tryggð

Frumvarpið er lagt fram án þess að tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda sem gerðar voru við það haustið 2024, og eiga þær athugasemdir því ennþá við. Gerðar voru athugasemdir við að í frumvarpinu er gert ráð fyrir sömu gjaldtöku fyrir öll farartæki allt að 3.500 kg að þyngd. Breytingin mun þýða sparnað fyrir eigendur eyðslufrekra bíla en auknar álögur fyrir eigendur minni sparneytinna bíla (3). Slíkar ráðstafanir eru ekki líklegar til þess að hvetja til minni losunar frá vegasamgöngum og auk þess sem það gengur gegn stefnu stjórnvalda um réttlát umskipti því hinir efnaminni velja frekar litla og sparneytna bíla. Því hvetur Aldin til að breytingar verði gerðar á frumvarpinu til að koma í veg fyrir þessar afleiðingar.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu þá eykst vegslit í fjórða veldi m.v. aukna öxulþyngd. Það er því ljóst að veggjaldið, sbr. 6. grein frumvarpsins, sem er 43,56 kr. fyrir þyngstu flutningabílana, en 6,7 kr fyrir bíla allt að 3,5 tonnum, endurspeglar ekki kostnað vegna slits á vegum. Þá er ljóst að hækkunin á milli flokka fylgir ekki reiknireglu. Í flokkunum léttustu bíla hækkar gjaldið um 6% við hvert tonn en í þeim þyngstu um 3,5%. Gjaldtaka fyrir þyngstu flutningabílana er einungis ríflega 6-falt hærra en fyrir 2 tonna fólksbíl á meðan vegslit 50 tonna flutningabíls er á við vegslit 14.500 tveggja tonna bíla sem aka sömu vegalengd og flutningabíllinn.

Það er grundvallaratriði að við skiptingu í gjaldflokka sé miðað við skiljanlega reiknireglu en ekki tilviljun; og að sú regla gildi jafnt fyrir ökutæki sem falla neðst í þyngdarskalanum og þau sem eru efst í skalanum. Þá er það skynsamlegt og sanngjarnt að miða upphaf skalans við lægri þyngd, t.d. 1 tonn, en ekki 3,5 tonn eins og gert er í frumvarpinu. Með því njóta þeir sem aka léttum og sparneytnum bílum hags af því að þessi ökutæki menga minna og slíta vegunum umtalsvert minna en ökutæki sem vega 3,5 tonn. Í því sambandi má einnig benda á að vaxandi fjöldi þyngri einkabíla fjölgar alvarlegum slysum og því afar óheppilegt að með þessu frumvarpi sé innleiddur hvati til fjölgunar einkabíla í efri þyngdarflokkum.

Í viðtali Spegilsins á RÚV við Vegamálastjóra 10. mars sl. kom greinilega fram, að slæmt ástand vega á Vesturlandi má rekja til þess þegar farið var að flytja eldisfisk landleiðina frá Vestfjörðum árið 2015. Fimm árum seinna voru vegirnir farnir að láta verulega á sjá, sem kom vegamálayfirvöldum ekki á óvart.

Aldin bendir á að kolefnisspor sjóflutninga er að jafnaði aðeins 10-20% af kolefnisspori landflutninga með bifreiðum miðað við sömu vegalengd á sjó eða á landi. Til viðbótar kemur samfélagslegur sparnaður vegna lægri kostnaðar við viðhald á vegum. Löggjafinn getur stuðlað að auknum strandflutningum með hagrænum hvötum, sem áhrifaríka leið til þess að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum auk stórfellds sparnaðar í viðhaldi vegakerfisins.

Aldin telur mikilvægt að stefna að því að kílómetragjald á þyngstu ökutækin endurspegli kostnaðinn við slit þeirra á vegakerfinu. Þetta má kalla borgunarregluna, þ.e. sá sem veldur sliti á mannvirkjum, skaða eða mengun borgar fyrir það. Það myndi hvetja landflutningafyrirtækin, sem í mörgum tilfellum eru eign skipafélaga, til þess að auka strandsiglingar og þar með lækka kolefnisspor vöruflutninga og minnka viðhaldsþörf vegakerfisins. Þannig vill Aldin benda á að með auknum strandsiglingum, t.d. með afurðir fiskeldis á Vestfjörðum myndi bæði sparast verulegt álag á viðkomandi vegakerfi sem og kolefnisspor vörunnar minnka verulega þrátt fyrir að skipin notuðu jarðefnaeldsneyti. Slík breyting á flutningsmáta myndi ekki hafa neikvæð áhrif á ferskleika vörunnar sé notast við nútíma geymsluaðferðir. Þó þarf að gæta þess að beita „borgunarreglunni“ á kílómetragjaldið á þyngstu ökutækin í áföngum svo atvinnulífið hafi eðlilegan aðlögunartíma til að flytja þjónustuna af þjóðvegunum út á sjó.

(1) https://ust.is/…/losun…/skuldbindingar-islands/ 

(2) Sjá heimasíðu Bílgreinasambandsins, fréttir 3.12.2024 og 30.12.2023 

(3) Sjá m.a. athugasemdir Aldins og Samtaka verslunar og þjónustu.

https://ust.is/loft/losun-grodurhusalofttegunda/skuldbindingar-islands/?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR1_JOSsVbN57hGEN7VbwpSHhjOCewCtAzyzanrj-lC7mpYxtSAzdtGghfM_aem_6w0RMsqUs1sDDoOvdE158Q

 

Guðsglíman – núvitund og umbreyting

Ég axlarbrotnaði í lok janúar. Það var sárt og hafði ýmsar afleiðingar hvað varðar líðan, verkagetu og samskipti. Ég hef því nokkra innsýn og mikla samúð með Jakobi, ættföður Ísraela og heimsbyggðarinnar því hann varð fyrir því óláni að fara úr mjaðmarlið. Það hefur sárt og skelfilegt – ekki síst vegna þess að hann átti í stappi við Guð. Jakobstextinn er lexía næsta sunnudags og er svona:

„Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“

Í þessari frásögu fyrstu Mósebókar breyttist Jakob og umbreytingin var alger. Hann varð fyrir skelfilegri reynslu, glímdi aleinn í næturmyrkri við ókunna veru. Frá þeim slag kom hann annar maður, með nýtt nafn og nýja vitund um hveer hann væri. Sjálfsmynd hans var breytt. Hvernig eigum við að skilja þessa sögu og hefur hún einhverja merkingu fyrir okkur nútímafólk? Og er einhver tilgangur með því að ræða um svona forneskju í kirkjum heimsins?

Frásögnin getur verið táknsaga um innri baráttu okkar allra – glímu okkar við sjálfsmynd, fortíð, ótta og vonir. Í lífinu lendum við stundum í aðstæðum sem neyða okkur að horfast í augu við okkur sjálf, jafnvel þó það geti verið afar sársaukafullt, jafnvel verra en stórfellt líkamstjón. Jakob slaðaðist í slagnum en reynslan varð honum þó til góðs – það sem kallast blessun á máli Biblíunnar. Með hliðstæðum hætti getur persónuleg þjáning, kvíði, efasemdir eða mótlæti leitt okkur til dýpri skilnings og umbreytingar sjálfsins.

Jakob sleppti ekki taki á verunni sem hann barðist við fyrr en hann var blessaður. Í mótlæti og erfiðleikum lífsins eigum við alltaf val. Annað hvort getum við gefist upp eða haldið fast í von um að af glímunni spretti fram ný vera, nýtt líf – sem sé nýtt nafn. Að verða Ísrael þýðir að hafa staðið af sér storminn, að hafa tekist á við sjálfan sig og Guð en samt haldið lífi. Til þess konar glímu þarf styrk, þrautseigju og trú.

Axlarbrot, mjaðmarmeiðsli eða tilfinningalegar og félagslegar áskoranir eru ekki alltaf óyfirstíganlegar hindranir, heldur geta jafnvel orðið tækifæri til vaxtar. Hvers eðlis er innri glíman? Í hvað þurfum við að halda fast þar til við skiljum eða viðurkennum blessunina sem slagið getur leitt til? Þegar við stöndum augliti til auglitis við okkur sjálf og dýptir tilveru okkar getum við fundið nýja merkingu, nýjan tilgang. Þá fáum við nýja sjálfsvitund, ný tengsl og nýtt nafn.

Hér að neðan er mynd Chagall af glímu Jakobs og Guðs. 

Líflegt í Alviðru

Stjórn Landverndar ákvað að fjölga í stjórn Alviðru úr þremur fulltrúum í fimm. Núverandi stjórnamenn eru Auður I. Ottesen, gjaldkeri, Kristín Vala Ragnarsdóttir, fulltrúi stjórnar Landverndar, Margarita Hamatsu, Sigurður Árni Þórðarson, ritari, og Tryggvi Felixson, formaður. Myndin var tekin á fundi stjórnar Alviðru 8. mars 2025. Með vorinu lifnar Alviðra við eftir vetrardvala. Sjálfboðaliðar SEEDS mæta um miðjan apríl og vinna við endurbætur á fjósinu og fleira. Grenndargarðurinn tekur til starfa í maí og stangveiðimenn fjölmenna á bakka Sogsins. Skólarnir eru boðnir velkomnir með sumarkomu og opið hús verður fyrir kennara 25. apríl. Í sumar verður svo fjölþætt opin fræðslu- og upplifunardagskrá sem lýkur með uppskeruhátíð í september. Verið velkomin í Alviðru.

Hættum að byggja á uppfyllingum!

Í stórviðrum og brimi síðustu viku gekk sjór á land á suðvesturhorninu. Víða urðu skemmdir á mannvirkjum og dæla varð úr mörgum húsum á höfuðborgarsvæðinu. Við Skerjafjörð skemmdust göngustígar, mikið af þara barst á land sem og grjót og möl. Fjörukambarnir rofnuðu víða, möl og grjót í fjörunni sópaðist tugi metra upp á land og nýir malarhólar mynduðust. Ef sjór hefði staðið 20 cm hærra hefði farið verr og sjór flætt í fjölda húsa. Nú er ráð að viðurkenna breytingar á sjávarstöðu og virða stórflóð og huga betur að varnargörðum. Breytum forgangsröð varðandi húsbyggingar og mannvirkjagerð. Hættum að byggja á uppfyllingum.

Myndin er af grjótuppburði við Skerjafjörð. Áður var þarna fallegt tún.

Anna Kristín – blessuð veri minning hennar

Anna Kristín Arngrímsdóttir er látin. Hún var frænka mín. Þegar hún kom suður til að hefja leiklistarnám kom hún oft í heimsókn á heimili mitt, til að gleðja frænku sína, kynnast fændfólkinu og líka til að fá lánaðar bækur. Mér þótti gaman að ganga með fallegu en feimnu frænku meðfram mörgum bókaskápum heima og fylgjast með hvernig hún valdi. Hún fékk lánaðar þær bækur sem tengdust leikritum eða leikhúsinu, augljóslega til að menntast og lesa sér til. Stundum staldraði hún við ljóðabækurnar og fagnaði eftirminnilega vel þegar hún fann kvartmeter af bókum Davíðs Stefánssonar. Það kvöld fór hún klyfjuð til síns heima. Hún sagðist brosandi ætla að æfa sig á upplestrinum sem hefur orðið með bjartari og hlýrri blæ en hjá skáldinu frá Fagraskógi. Takk fyrir allar sýningarnar. Blessuð veri minning Önnu Kristínar og Guð umvefji ástini hennar og okkar.

Anna Kristín er sjötta frá vinstri – í hópi leiklistardrottninga.