Hér að neðan er umsögn Aldins vegna frumvarps um kílómetragjald. Höfundar eru Danfríður Skarphéðinsdóttir, Helgi Jensson, Magnús Jóhannesson, Stefán Einarsson og Örn D. Jónsson. Aldin er viskubrunnur áhugafólks um loftslagsmál. Hópurinn hittist í safnaðarheimili Neskirkju einu sinni í mánuði. Umsögnin hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.
Efni: Umsögn Aldins, samtaka eldri aðgerðasinna gegn loftslagsvá, um frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki, 156 löggjafarþing 2025. Þingskjal 123 – 123. mál.
Til þess að uppfylla skuldbindingar Íslands gagnvart Loftslagssamningi Sameinuðu Þjóðanna þarf losun gróðurhúsalofttegunda, sem hluti af svokallaðri samfélagslosun, að dragast saman um 40% fram til ársins 2030 miðað við losunina eins og hún var árið 2005 (1). Stærsti hluti samfélagslosunarinnar, eða þriðjungur, er vegna vegasamgangna. Í stað samdráttar jókst þessi losun um 19,5% milli áranna 2005 og 2022. Það er alveg ljóst að ekki mun takast að uppfylla skuldbindingarnar nema með samdrætti í þessum stærsta þætti samfélagslosunarinnar og að það mun einungis takast með orkuskiptum í vegasamgöngum og breytingum á ferðamáta.
Það er hlutverk löggjafans að setja lög sem liðka fyrir og hvetja til þessara orkuskipta og breytinga. Loftslagsmarkmið þurfa því að gegnsýra löggjöf sem snýr að gjaldtöku á ökutæki þannig að hún virki sem hvatning til orkuskipta og breytinga.
Þær breytingar sem gengu í gildi í ársbyrjun 2024, með breyttum ívilnunum varðandi kaup á rafbílum og álagningu sérstaks vegagjalds seinkuðu orkuskiptum. Árið 2023 var hlutfall rafbíla í nýskráningum fólksbíla einstaklinga og fyrirtækja annarra en bílaleiga 71,7%, en á árinu 2024 hafði þetta hlutfall (t.o.m. nóvember) fallið niður í 44,1% (2). Með hækkun veggjalds rafbíla, sem fram kemur í frumvarpinu, er höggið öðru sinni í sama knérunn. Þessi boðaða hækkun á útgjöldum rafbílaeigenda mun auka hlutfallslega rekstrarkostnað rafbíla í samanburði við bíla sem ganga fyrir olíu eða bensíni. Ekki verður því annað séð en að boðuð breyting muni letja fremur en hvetja til kaupa á rafbílum. Hindrunin fyrir nauðsynlegum orkuskiptum er því sett á hærra stig. Aldin hvetur því til að fallið verði frá auknum álögum á rafbílaeigendur eða að álögur á bíla sem ganga fyrir olíu og bensíni verði auknar umtalsvert svo hagkvæmni orkuskipta verði tryggð
Frumvarpið er lagt fram án þess að tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda sem gerðar voru við það haustið 2024, og eiga þær athugasemdir því ennþá við. Gerðar voru athugasemdir við að í frumvarpinu er gert ráð fyrir sömu gjaldtöku fyrir öll farartæki allt að 3.500 kg að þyngd. Breytingin mun þýða sparnað fyrir eigendur eyðslufrekra bíla en auknar álögur fyrir eigendur minni sparneytinna bíla (3). Slíkar ráðstafanir eru ekki líklegar til þess að hvetja til minni losunar frá vegasamgöngum og auk þess sem það gengur gegn stefnu stjórnvalda um réttlát umskipti því hinir efnaminni velja frekar litla og sparneytna bíla. Því hvetur Aldin til að breytingar verði gerðar á frumvarpinu til að koma í veg fyrir þessar afleiðingar.
Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu þá eykst vegslit í fjórða veldi m.v. aukna öxulþyngd. Það er því ljóst að veggjaldið, sbr. 6. grein frumvarpsins, sem er 43,56 kr. fyrir þyngstu flutningabílana, en 6,7 kr fyrir bíla allt að 3,5 tonnum, endurspeglar ekki kostnað vegna slits á vegum. Þá er ljóst að hækkunin á milli flokka fylgir ekki reiknireglu. Í flokkunum léttustu bíla hækkar gjaldið um 6% við hvert tonn en í þeim þyngstu um 3,5%. Gjaldtaka fyrir þyngstu flutningabílana er einungis ríflega 6-falt hærra en fyrir 2 tonna fólksbíl á meðan vegslit 50 tonna flutningabíls er á við vegslit 14.500 tveggja tonna bíla sem aka sömu vegalengd og flutningabíllinn.
Það er grundvallaratriði að við skiptingu í gjaldflokka sé miðað við skiljanlega reiknireglu en ekki tilviljun; og að sú regla gildi jafnt fyrir ökutæki sem falla neðst í þyngdarskalanum og þau sem eru efst í skalanum. Þá er það skynsamlegt og sanngjarnt að miða upphaf skalans við lægri þyngd, t.d. 1 tonn, en ekki 3,5 tonn eins og gert er í frumvarpinu. Með því njóta þeir sem aka léttum og sparneytnum bílum hags af því að þessi ökutæki menga minna og slíta vegunum umtalsvert minna en ökutæki sem vega 3,5 tonn. Í því sambandi má einnig benda á að vaxandi fjöldi þyngri einkabíla fjölgar alvarlegum slysum og því afar óheppilegt að með þessu frumvarpi sé innleiddur hvati til fjölgunar einkabíla í efri þyngdarflokkum.
Í viðtali Spegilsins á RÚV við Vegamálastjóra 10. mars sl. kom greinilega fram, að slæmt ástand vega á Vesturlandi má rekja til þess þegar farið var að flytja eldisfisk landleiðina frá Vestfjörðum árið 2015. Fimm árum seinna voru vegirnir farnir að láta verulega á sjá, sem kom vegamálayfirvöldum ekki á óvart.
Aldin bendir á að kolefnisspor sjóflutninga er að jafnaði aðeins 10-20% af kolefnisspori landflutninga með bifreiðum miðað við sömu vegalengd á sjó eða á landi. Til viðbótar kemur samfélagslegur sparnaður vegna lægri kostnaðar við viðhald á vegum. Löggjafinn getur stuðlað að auknum strandflutningum með hagrænum hvötum, sem áhrifaríka leið til þess að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum auk stórfellds sparnaðar í viðhaldi vegakerfisins.
Aldin telur mikilvægt að stefna að því að kílómetragjald á þyngstu ökutækin endurspegli kostnaðinn við slit þeirra á vegakerfinu. Þetta má kalla borgunarregluna, þ.e. sá sem veldur sliti á mannvirkjum, skaða eða mengun borgar fyrir það. Það myndi hvetja landflutningafyrirtækin, sem í mörgum tilfellum eru eign skipafélaga, til þess að auka strandsiglingar og þar með lækka kolefnisspor vöruflutninga og minnka viðhaldsþörf vegakerfisins. Þannig vill Aldin benda á að með auknum strandsiglingum, t.d. með afurðir fiskeldis á Vestfjörðum myndi bæði sparast verulegt álag á viðkomandi vegakerfi sem og kolefnisspor vörunnar minnka verulega þrátt fyrir að skipin notuðu jarðefnaeldsneyti. Slík breyting á flutningsmáta myndi ekki hafa neikvæð áhrif á ferskleika vörunnar sé notast við nútíma geymsluaðferðir. Þó þarf að gæta þess að beita „borgunarreglunni“ á kílómetragjaldið á þyngstu ökutækin í áföngum svo atvinnulífið hafi eðlilegan aðlögunartíma til að flytja þjónustuna af þjóðvegunum út á sjó.
(1) https://ust.is/…/losun…/skuldbindingar-islands/
(2) Sjá heimasíðu Bílgreinasambandsins, fréttir 3.12.2024 og 30.12.2023
(3) Sjá m.a. athugasemdir Aldins og Samtaka verslunar og þjónustu.
https://ust.is/loft/losun-grodurhusalofttegunda/skuldbindingar-islands/?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR1_JOSsVbN57hGEN7VbwpSHhjOCewCtAzyzanrj-lC7mpYxtSAzdtGghfM_aem_6w0RMsqUs1sDDoOvdE158Q