Axlarbrot og upprisa

Ég er axlarbrotinn. Bílastæðið í Bláfjöllum var sleipt og hart í góðviðrinu á miðvikudegi fyrir hvell. Eva læknir á bráðamóttökunni skipaði mér ströng á svip að melda mig út úr hlutverkum mínum í lífinu. Ég kvakaði í gærmorgun yfir skerðingum í svefni og vöku og sonur minn horfði á mig og sagði mildilega: „Nú hefur þú tækifæri að horfa inn á við!“ Svona skilar sér til baka uppeldi aldraðra foreldra og hittir örugglega í mark. En hann lagðist svo við hlið mér og las upphátt fyrstu kaflana í Fávita Dostojevskís. Við erum jú með sameiginlegt prógram í Rússunum og það skerðist vonandi ekki stórkostlega. Annar sonur – Bláfjallamaðurinn – reiddi fram dásamlegan hádegisverð. Mamman dekraði svo við alla kallana. Kæru vinir – ég dreg mig í brothlé – verð fjarlægur, félagslega óvirkur og líka á facebook. Ég hreyfi mig virðulega, líka í svefni eins og Búdda. Fastan byrjar fyrr hjá mér en flestum öðrum en páskar eru upprisuhátíð okkar kristinna. Ég lifi í von og trú. 
Meðfylgjandi mynd er sú síðasta fyrir brot.

Hægeldað lambalæri – Bernaise!

Ég bjó til góða og vel heppnaða bernaise-sósu með nautasteik. Það var talsvert eftir af henni í máltíðarlok og hún fór því í kælinn. Daginn eftir var ég með lambalæri í kælinum og velti vöngum yfir hvort hægt væri að sameina gæði sósunnar og lærisins. Matarsóun ekki boði en ekki heldur bragðrugl. En tilraunin heppnaðist – lambalæri bernaise varð til. „Þetta er frábært kjöt og frábær matur pabbi.“ Kokkinum þótti lofið gott.

Úrbeinað lambalæri (ég krydda oft daginn fyrir steikingu og smelli í kæliskápinn)

Bernaise sósa – köld, 3-4 dl.

Hvítlauksrif – nokkur lauf að smekk pressuð eða smáskorin

Krydd – eftir stemmingu dagsins

Salt og pipar

 Ofn stilltur á 110°C (blástursstilling)

Ég úrbeinaði lærið og smurði bernaise-sósunni í opnuna á lambalærinu (þar sem beinið var), kryddaði vel og ekki gleyma salti og pipar. Stundum bæti ég við cayennepipar eða chili.

Saumaði kjötið saman í kúlu með bjúgnál (má vefja saman með þræði). Smellti kjötinu í steikingarfat með loki. Steikt í 3-4 klukkutíma. Í lokin er hitinn hækkaður í 180°C í 10 mínútur.

Kjötið tekið úr ofninum og haft í stofuhita í 15-20 mínútur. Þráðurinn er tekinn úr (þráðurinn sem bundið var með eða saumað með). Kjötið síðan skorið í þunnar sneiðar og borið fram. Ljómandi að strá nokkrum saltflögum yfir, bæði vegna bragðs og augnayndis.

Meðlæti að vild – t.d. sósa, salat og bakaðar kartöflur. Ég notaði bernaisesósuna og steikti sveppi, sauð líka beinið til að fá kjötkraft fyrir sósuna og rauðvínssletta og rjómi bæta mjög dýptarbragð sósunnar.

Meðfylgjandi mynd er í engu samræmi við bragðgæði kjötsins. 

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. 

Trú að hverfa?

Liðna áratugi hafa orðið djúptækar breytingar í menningu vestrænna samfélaga. Andúð á stofnunum hefur aukist, sérstaklega þeim sem eru svifaseinar gagnvart hraða samfélagsins, tæknibreytingum og samskiptaháttum. Þær liggja vel við höggi og greinar ríkisvaldsins eru þar með taldar. Gamlar menningarstofnanir hafa ekki sjálfkrafa gildi eða hlutverk fyrir fjöldann. Fólk sýnir svo afstöðu með fótum og puttum sem slá á takka og skjái og melda sig út. En stofnanir sem hreyfa sig hægt tapa stuðningi fólks sem er á fleygiferð.

Á árunum 2011 til 2015 var gerð rannsókn á trú og trúarviðhorfum ungs fólks í íslenskum framhaldsskólum. Liðlega níu hundruð ungmenna 18 og eldri voru spurð um hvaða afstöðu þau hefðu til mála og álitaefna sem varða trú, aukinn fjölbreytileika lífsskoðana í samfélaginu og gildi átrúnaðar. Niðurstaðan var að meirihlutinn taldi að trú væri ekki samfélagslega mikilvæg og hefði ekki mikla þýðingu fyrir þau persónulega. Er trúin að hverfa? Eða er hún kannski að breytast í íslensku samfélagi? Ég held að svo sé. En breytingar í íslenskum kirkjumálum er eitt og annað staða kristni í veröldinni. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa.

Trú á breytingaskeiði?

Hvað er trú? Fólk hefur ólíkar hugmyndir um eðli hennar og hlutverk. Sumir telja í einfeldni sinni að trú sé forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina og því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er röng túlkun. Sum sem hafa litla dýptarsýn telja að hún sé grunnfærin bókstafstrú. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.

En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa hugmynda, samfélagsafstöðu eða heimafenginnar speki. En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg í kirkjum og samfélagi en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru háðar trú. Er þá trúin ekki á útleið? Nei. Þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki heldur aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkja tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka trúarkenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið fyrir löngu að sköpunarsagan er ekki náttúrufræði heldur ljóð um tilgang lífsins og merkilega helgisiði. Nei, trúin þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú og kirkjulegar stofnanir.

Lífsfestan sjálf

Hvað er þá trú? Trú er undur sem Guð kallar fram. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Öll þau sem hafa verið upplýst af ljósi trúar fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Okkar er valið. Við getum sjálf ákveðið að sjá í undri veraldar aðeins tilviljun eða farið leið hinnar stóru nálgunar að nema undur nálægðar Guðs.

Trú er ekki yfirborðslegt fyrirbæri, yfirborðslegar skoðanir og allra síst forvísindaleg lífssýn. Trú er mun fremur það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Guði er ekki þar með ógnað. Guð er dýpt lífsins, okkur nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er okkur nánari en vitund okkar og sjálfsskilningur. Guð er allt það sem skapar tilveru lífs og einstaklionga. Guð er hið hinsta viðmið hvort sem menn trúa Guði eða ekki. Trúarkenningar mega breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Og guðstengslin, trúartengslin þarf að skilja með nýjum hætti. Trúin er ekki að hverfa en er að breytast. Við sem trúarsamfélag megum opna fyrir róttækari skilning, breytta skynjun og dýpri nálgun. Það verkefni skynsemi okkar að endurtúlka og nýtúlka trú. Auk okkur trú er forn bón. Hún er líka ný því við megum opna allar gáttir, brjóta hlekki huga og anda og nema í öllu nánd Guðs og endurtúlka. Auk okkur trú og vinurinn Guð svarar.

Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir – minningarorð

Við dr. Svana Helen Björnsdóttir fluttum sitt hvora minningarræðuna í útför-bálför Guðrúnar G. Sæmundsdóttur í Neskirkju 21. janúar 2025. Svana Helen var tengdadóttir Guðrúnar og Þórunn Harðardóttir einnig en hún lék á víólu sína í athöfninni. Það var hrífandi að hlusta á þessar tvær tengdadætur bera fram orð og tóna í minningu tengdamóðurinnar. Ég flutti fyrri minningarorðin en Svana Helen þau seinni. Minningarorðin eru hér að neðan. 

Minning 1. (höfundur SÁÞ) 

Blokkirnar við Hjarðarhaga voru og eru ævintýralegar mannlífsmiðstöðvar. Fyrstu áratugina voru þær fullar af börnum og þar með litríku mannlífi. Blokkir gengu undir ýmsum nöfnum hjá okkur sem bjuggum í hverfinu. Í Fornhagablokkinni hennar Guðrúnar átti ég tvo skólabræður sem ég heimsótti oft og fékk því tilfinningu fyrir lífinu og húsbragnum. Þegar ég hitti svo Guðrúnu fyrir ellefu árum fékk ég algerlega nýja mynd af blokkinni. Þá hitti ég konu sem kvað fast að orði, horfði ákveðið, hafði skoðanir á flestum málum og hafði hraðan húmor. Guðrún ræddi við prestinn um mat, menningu og fólk. Hún tjáði óhikað ást sína á manni sínum, sonum, tengdadætrum og barnabörnum. Mér fannst hún tjá elsku sína með hrífandi móti. Svo ræddi hún um gleðiefni sín, harmsefni, rósir og önnur blóm, fólkið í húsinu og jafnvel dýrin í garðinum. Ég fékk að vita að hún vann frábært starf í garðinum og fékk þakkir fyrir og garðurinn lof.  Og þá spratt fram í huga mínum mynd af stjóranum Guðrúnu. Hún hafði skoðanir á sínum körlum og stefnumálum þeirra. Hún var sjómannskonan sem ekki aðeins varð að stýra heimilislífinu í fjarveru bónda síns, heldur gerði það með einurð, ákafa og alúð. Þegar Þorsteinn kom svo endanlega í land var hún áfram stjórinn, gerði fólkinu sínu gott, en líka samferðafólkinu í blokkinni og lífinu á lóðinni. Guðrún gat staðið við gluggana sína og fylgst með mannlífi og tekið veðrið. Eins og skipstjóri í brúnni tók hún upp tólið og breytti um stefnu, tjáði stefnubreytingu úr brúnni og niður í vélarrúm veraldarinnar. Þegar ég fór svo um Hjarðarhagann að Forhaganum fannst mér að blokkin væri sem skip – og Guðrún í brúnni á fleyi sínu á bullandi siglingu á miklu mannlífshafi. Hún var skipperinn. Fólkið í húsinu voru vinir hennar og jafnvel kettirnir í hverfinu virtu hana og elskuðu. Þeir komu, tylltu sér á bossann á túninu og störðu upp á þriðju hæðina til Guðrúnar og vonuðu að hún ætti eitthvað aflögu, að einhverjar bakstursleyfar kæmu fljúgandi úr brúnni, svölunum hennar Guðrúnar! Fornhagablokkin var mér ekki lengur barnahöll bernskunnar heldur sem lífsskip með skipper Guðrúnu – skipstjórann með rauða eða bleika varalitinn! Þetta er mín mynd – mín útgáfa – vegna þess að ég dáðist að Guðrúnu, afstöðu hennar, styrk og getu. Við búum til myndir af fólki og húsum til gleði- eða skilningsauka. Mín uppáhaldsmynd er af Guðrúnu í brúnni. Og siglingin var í þágu fólksins hennar, nágranna og samferðarfólks. Og börnin í hverfinu og jafnvel skepnurnar nutu hennar.

Hver er þín mynd af Guðrúnu? Við skil er gott, hollt og jafnvel mikilvægt að íhuga reynslu okkar af fólki – bæði til að kveðja og blessa minningar – en líka til að nærast af í því merkilega lífsverkefni okkar allra – að þroskast og efla lífleikni.

Upphaf og fjölskylda

Guðrún var sumarkona, fæddist í Reykjavík fimmtudaginn 21. júlí árið 1932. Hún var dóttir hjónanna Vigdísar Þórðardóttur og Sæmundar E. Ólafssonar. Systkinin voru fjögur og Guðrún var önnur í röðinni. Elstur var Ólafur. Hann fæddist árið 1926 en dó úr barnaveiki á tíunda ári. Þá var Guðrún á fjórða ári. Fráfall Ólafs varpaði löngum skugga á líf fjölskyldunnar og Guðrúnar. Hvernig vinna foreldrar úr slíkum missi? Og hvað settist að í Guðrúnu? Tvö yngri systkinin fæddust svo nokkrum árum síðar þegar seinni heimsstyrjöldin var hafin. Þau voru Ólafur Þórður og Erna – en nú eru öll systkinin horfin úr þessum heimi.

Guðrún ólst upp í fallegu fjölskylduhúsi nr. tvö við Sjafnargötu – á horninu við Njarðargötuna. Sunnan við húsið var og er stór og sólríkur garður. Hverfið var barnmargt og mannlífið fjölskrúðugt. Á leið í skólann gekk Guðrún fram hjá Hnitbjörgum myndlistarmannsins Einars Jónssonar. Þar var margt að skoða. Og hinum megin við kirkjulaust og Iðnskólalaust Skólavörðuholt var sá framsækni og nútímalegi Austurbæjarskóli. Síðar sótti Guðrún nám í Ingimarsskóla og fékk þá umsögn að hún væri hæfileikarík og ætti að læra meira. Það gerði hún og Guðrún sótti nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Þar lærði hún flott handverk og að stýra heimili.

Hjúskapur og strákarnir

Svo kom glæsimennið Þorsteinn Bjarnason inn í líf Guðrúnar og falleg ástarsaga hófst. „Við sáumst niður í Hafnarstræti“ sagði hún mér með blik í augum. „Hann var svo fallegur,“ bætti hún við og brosti. Þetta var árið 1952. Guðrún vissi reynar af honum áður og hann hafði spurnir af henni. Svo drógust þau að hvoru öðru og byrjuðu svo að búa. Þau gengu í hjónaband 14. júlí 1956. Guðrún var tæpum tveimur árum yngri en bóndi hennar. Á giftingarárinu 1956  fluttu ungu hjónin á Fornhaga 17 og áttu þar heima allan sinn hjúskap. Og Guðrún taldi sig afar lánsama að hafa átt Þorstein sem eiginmann og tjáði óhikað þá afstöðu og þakklæti. Þorsteinn lést árið 2013 en Guðrún var áfram í brúnni á Fornhagablokkinni þar til fyrir tveimur árum. Þá fór hún á Grund við Hringbraut, og laus við eldhúsbras og heimilishald gat hún verið með fínar neglur, flottan varalit og uppáklædd.

Þeim Þorsteini og Guðrún fæddust þrír synir.

Sæmundur Elías er elstur og kom í heiminn árið 1958. Kona hans er Svana Helen Björnsdóttir og þau eiga þrjá syni, Björn Orra, Sigurð Finnboga og Þorstein. Þeir eru allir í sambúð, Björn Orri með Önnu Suleiku Küenzi í Zürich í Sviss, Sigurður Finnbogi með Andreu Björtu Garðarsdóttur og Þorsteinn með Margréti Stellu Kaldalóns – og þau eru búsett í Reykjavík.

Óli Ágúst fæddist 1963 en lést af slysförum árið 2001. Hann var kvæntur Sólveigu Níelsdóttur og áttu þau dótturina Rakel Guðrúnu. Hún er í sambúð með Guðmundi Halldórssyni og þau búa í Kaupmannahöfn.

Jón Viðar er yngstur bræðranna. Hann fæddist  árið 1971. Jón Viðar er kvæntur Þórunni Harðardóttur og þau eiga fjögur börn – Þorstein Jakob, Guðmundu, Lovísu Kristínu og Jóhönnu.

Þorsteinn var á sjó og Guðrún því í brúnni á heimilinu. Þorsteinn var ekki í landi þegar eldri synir hans fæddust en nærstaddur þegar Jón Viðar rak upp fyrstu rokuna. En svo kom hann í land. Guðrún fékk skilvirkan samverkamann og mikilvirkan afa. Þau voru öflugt ömmu-afa-teymi. Guðrún tjáði gjarnan ást sína með veitingum af alls konar gerðum. Hún hafði jú áhuga á fólki og mat. Barnabörnin nutu allrar athygli ömmu og afa, nutu þjónustu og góðs atlætis. Svo þegar synir Guðrúnar og Þorsteins fóru til útlanda var hægt að treysta afa og ömmu fyrir ungviðinu. Þau voru hlýr faðmur, veittu hlýja nærveru og miðluðu lífsgáska.

Guðrún lifði ástarsögu í hjúskap sínum með Þorsteini. Hann var traustur faðmur konu sinni, smart, örlátur, kærleiksríkur, sniðugur og bráðskýr. Guðrún var hugmyndarík um verkefni og leiðir og Þorsteinn hafði gaman af ferðalaginu með konu sinni. Ástarsaga Þorsteins og Guðrúnar var heillandi. En sonarmissirinn varð þeim ofurhögg. En þau héldu áfram lífsiglingunni. Þeirra saga tjáir að lífið er sterkara en dauðinn og gleðin er styrkari depurð.

Minningarorð þessarar athafnar er í tvennu lagi eins og þið sjáið í sálmaskránni. Nú lýkur fyrri hlutanum. Svana Helen Björnsdóttir, tengdadóttir Guðrúnar, flytur þau seinni og lýsir tengslum sínum við Guðrúnu sem og ýmsum eigindum hennar. En áður en hún flytur mál sitt mun Þórunn Harðardóttir, önnur tengdadóttir Guðrúnar, leika á víóluna sína. Það er raunar stórkostlegt að þær tvær – tengdadæturnar – Svana Helen og Þórunn, leggi orð og tóna til til þessar athafnar. Þórunn leikur nú Ave Maríu Sigvalda Kaldalóns við undirleik Steingríms Þórhallssonar.

Minningarorð 2 – höfundur Svana Helen Björnsdóttir

Það er síðasti dagur jóla og fólk er byrjað að skjóta upp flugeldum í tilefni af þrettándanum. Við sitjum saman fjölskyldan við rúm Guðrúnar, njótum samverunnar og vitum að stundin nálgast. Síðasta andvarpið og síðan ekki meir. Okkur setur hljóð. Við lítum hvert á annað og skynjum guðdóminn því okkar kæra Guðrún hefur andast og er nú himinborin eftir margra ára lífsstríð í ónýtum líkama. Ég finn tómið sem hún skilur eftir sig og sakna strax nærveru hennar. Hugsa, hvernig verður lífið án hennar, elsku tengdamóður minnar, ættmóðurinnar sem elskaði fólkið sitt, mundi og tengdi.

Minningar um Guðrúnu til fjörutíu og fjögurra ára streyma fram. Þau hjónin, Guðrún og Þorsteinn, tóku vel á móti konuefni sonarins. Hún spurði af áhuga um ætterni mitt og vildi vita allt um mína hagi. Það kom henni á óvart ég skyldi vera verkfræðinemi og fann ekki strax tengingu við húsmóðurina í mér. Mér varð fljótt ljóst að ég var komin inn í fjölskyldu sem var ólík þeirri er ég ólst upp í. Guðrún sagði allt, einnig það óþægilega, og hún hækkaði róminn óhikað ef henni þótti þurfa. Hún var sjómannskona, vön að axla ábyrgð á heimili og börnum í oft löngum fjarvistum Þorsteins. Sem dæmi má nefna að Sæmund, frumburðinn, bar hún ein til skírnar á jóladag því Þorsteinn var á sjónum. Presturinn spurði hissa um föðurinn og hún svaraði því til að hann væri á sjó og gæti því ekki verið viðstaddur.

Guðrún gekk hreint til verks og var „jaxl“. Þótt hún væri lágvaxin fyllti hún út í hvert rými með með sterkri nærveru sinni og sterkri rödd. Hún var góðum gáfum gædd, talaði tæpitungulaust, las mikið og var stálminnug. Hún hafði áhuga á fólki og vildi skilja fólk. Hún var óspör á lýsingarorð í efsta stigi og engan þekki ég annan sem talað hefur um „himneskar kartöflur“. Ef umræðuefnið var henni mikilvægt leiftruðu augun hvössu bliki og hendurnar hófust á loft til áhersluauka. Hún var rammpólitísk og gamli Alþýðuflokkurinn var hennar flokkur.

Leið Guðrúnar lá í Húsmæðraskóla Reykjavíkur þar sem hún naut þess að læra allt sem laut að myndarlegu heimilishaldi. Hún hafði ekki aðeins áhuga á mataruppskriftum, matseld og bakstri, heldur voru hannyrðir og blómarækt einnig stór þáttur í lífi hennar. Í áratugi hafði hún umsjón með stóra og fallega garðinum við Fornhagablokkina sem hún bjó í. Rósirnar voru stolt hennar. Hannyrðirnar hennar eru listaverk, sér í lagi útsaumurinn og handmálaða postulínið. Fötin sneið hún og saumaði á sig sjálf. Hún var listræn, óhrædd við liti og vildi hafa fallegt í kringum sig. Fornhagaheimilið var hlaðið málverkum og margs konar listmunum. Hún hafði gaman af því að punta sig og vera vel til fara, þá með vel klippt og lagt hár, með fallega lakkaðar neglur og bleikan eða rauðan varalit.

Það var ekki fyrr en elsti sonur okkar Sæmundar, Björn Orri, fæddist að við náðum að tengjast vel. Stuttu síðar fæddust tvíburarnir Sigurður Finnbogi og Þorsteinn og Guðrún fékk nóg að gera í langþráðu ömmuhlutverki. Þá loksins var ég tilbúin til að taka við öllum þeim kærleika og umhyggju sem Guðrún hafði að gefa mér og mínum – og það af miklu örlæti. Þegar Þorsteinn hætti á sjónum tóku við hamingjuár hjá þeim hjónum. Við Sæmundur höfðum bæði mikið að gera í okkar störfum og þurftum sannarlega á hjálp afa og ömmu á Fornhaga að halda. Stússið með barnabörnin gaf þeim báðum mikla lífsfyllingu. Barnabörnin urðu alls átta og öll voru þau frá fæðingu fallegustu og yndislegustu börn sem fæðst hafa undir sólinni.

Það er alltaf góð byrjun að hæla börnum við foreldrana og ég viðurkenni að ofurást Guðrúnar á sonum mínum bræddi hjarta mitt. Afi varð einkabílstjóri sonanna en amma prjónaði á þá fatnað og eldaði og bakaði út í eitt flesta daga, kanilsnúða, pylsusnúða, pizzusnúða og annað sem drengirnir höfðu lyst á. En amma hafði líka sinn háttinn á hlutunum. Pizzurnar hennar nutu t.d. ekki alltaf mikilla vinsælda. Þær voru þykkar brauðbökur með ýmiss konar ofanáleggi og segja má að þar hafi tilraunakennd eldamennska farið fram. Öðru máli gilti um kransakökubaksturinn. Ég hef ekki tölu á öllum kransakökunum sem hún bakaði, en sem dæmi má nefna að hún bakaði 2 kransakökur fyrir brúðkaupið okkar Sæmundar sem ég síðan setti saman og skreytti. Það er ekki að ástæðulausu að boðið verður upp á kransakökubita í erfidrykkjunni hér á eftir. – Þess má geta að í matseld og bakstri Guðrúnar var hollusta ekki endilega meginmarkmið. Aðalatriði var að matur og kökur smökkuðust vel – og þá þýddi lítið að spara smjörið, rjómann og sykurinn. Guðrún var reyndar mikill sælkeri og vildi alltaf eiga nóg af sælgæti í „nammiskápnum“ – fyrir börnin – sagði hún, því hún væri sjálf ekki neitt fyrir sælgæti.

Það er varla hægt að segja að Guðrún hafi haft mikinn áhuga á leikfimi, en sundið var hennar helsta heilsurækt og hún var ekki ánægð nema komast í sund dag hvern á meðan heilsan leyfði. Því áhugamáli deildu þau Guðrún og Þorsteinn.

Guðrún átti það til að ganga yfir mörk mín og annarra. Það gerði hún oft meðvitað til að kalla fram viðbrögð, en uggði þá ekki alltaf að sér. Með tímanum lærðum við að meta hvor aðra að verðleikum og virða mörk. Milli okkar þróaðist skilyrðislaus kærleikur og umhyggja og við lærðum að treysta hvor annarri. Það hefur aukið mannskilning minn og þroskað mig að þekkja Guðrúnu og mega deila lífshamingju minni með henni. Enginn hefur hrósað mér meira í lífinu en Guðrún. Faðmur hennar var mér og mínum alltaf opinn. Það var alveg sama hvenær ég kom eða hringdi, alltaf var mér tekið fagnandi og boðin hjartanlega velkomin.

Fyrir áratugum síðan tóku tengdaforeldar mínir upp á því að bjóða fjölskyldunni til sín, alla sunnudaga eftir messu. Við hittumst hjá þeim á Fornhaganum með börnin okkar og þáðum rausnarlegar veitingar. Það var skrafað, hlegið, teflt og við nutum þess að vera saman. Eftir lát Þorsteins árið 2013 héldum við áfram að koma saman hjá Guðrúnu eftir messu á sunnudögum. Síðustu tvö árin á Grund höfum við Sæmundur heimsótt hana svo að segja daglega og notið þess að rifja upp góða daga og gleðjast yfir lífshamingjunni. Hana dreymdi alltaf mikið og talaði oft um drauma sína við mig. Ef hana dreymdi blóm, þá var það fyrir barni innan fjölskyldunnar. Hana dreymdi t.d. fyrir öllum barnabörnunum. Stundum dreymdi hana sig sjálfa og þá var hún oftast ung að árum og naut þess að hlaupa um. Þannig sé ég hana líka fyrir mér sem stelpu á Sjafnargötunni, með ljósa lokka, káta og lífsglaða, hlaupandi á leið til vinkonu – eða kannski á leið að hitta Þorstein sinn.

Guðrún var þakklát almættinu fyrir lífið og fólkið sitt. Hún efaðist ekki um að hennar biði annað líf í einhverri mynd að loknu þessu jarðlífi. Hún var þess fullviss að þá yrði hún laus úr fjötrum síns slitna jarðneska líkama og gæti á ný svifið léttstíg í fang Þorsteins, sem alla tíð var ástin í lífi hennar.  

Við leiðarlok kveð ég mína elskulegu tengdamóður með djúpum söknuði. Efst í huga er þakklæti fyrir kærleik hennar og umhyggju.

Guð blessi minningu Guðrúnar.

Æviyfirlit

Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir fæddist í Reykjavík 21. júlí 1932 og lést á hjúkrunarheimilinu Grund 6. janúar sl. Guðrún var dóttir hjónanna Vigdísar Þórðardóttur, f. 1902 ,d. 2000 og Sæmundar E. Ólafssonar, f. 1899, d. 1983. Systkini Guðrúnar voru Ólafur, f. 1926, d. 1935, Ólafur Þórður, f. 1940, d. 2013 og Erna f. 1942, d. 1992. Guðrún ólst upp á Sjafnargötu 2 í Reykjavík, gekk í Austurbæjarskóla, Ingimarsskóla og Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Þann 14. júlí 1956 giftist hún Þorsteini Bjarnasyni, f. 1930, d. 2013. Foreldrar hans voru Ágústa Ólafsdóttir, f. 1904, d. 1990, og Bjarni Matthíasson, f 1893, d. 1945. Árið 1956  fluttu ungu hjónin á Fornhaga 17 í Reykjavík og áttu þar heima allan sinn hjúskap. Guðrún flutti á hjúkrunarheimilið Grund árið 2023 og naut þar góðrar umhyggju. Þau Þorsteinn eignuðust þrjá syni, Sæmund Elías, f. 1958, Óla Ágúst, f. 1963, d. 2001 og Jón Viðar, f. 1971. Sæmundur er kvæntur Svönu Helen Björnsdóttur og eiga þau þrjá syni, Björn Orra, f 1993, Sigurð Finnboga og Þorstein, f. 1996. Þeir eru allir í sambúð, Björn Orri með Önnu Suleiku Küenzi, þau eru búsett í Zürich í Sviss, Sigurður Finnbogi með Andreu Björtu Garðarsdóttur og Þorsteinn með Margréti Stellu Kaldalóns en þau eru búsett í Reykjavík. Óli Ágúst var kvæntur Sólveigu Níelsdóttur, dóttir þeirra er Rakel Guðrún, f. 1995. Hún er í sambúð með Guðmundi Halldórssyni og er heimili þeirra í Kaupmannahöfn. Jón Viðar er kvæntur Þórunni Harðardóttur. Heimili þeirra er í Reykjavík og eiga þau fjögur börn, Þorstein Jakob, f. 2010, Guðmundu, f. 2012, Lovísu Kristínu, f. 2016 og Jóhönnu, f. 2017.

Arineldur, ljós og hiti

Frá því á unglingsárum hef ég notið þess að kveikja upp og horfa í eld. Ég nýt þess að sitja við arinn eða kamínu, finna fyrir hitanum, skoða logana, njóta neistaflugsins og taka við öllum hugmyndunum sem kvikna í eldinum og skjótast síðan í kollinn. Arinn var í sumarbústað móðursystur minnar. Arnar voru í amerískum húsum sem ég var í á námsárunum vestra. Við nutum arinsins í Litlabæ á Grímsstaðaholti. Kamína var í sumarbústað sem við kona mín byggðum í Svarfaðardal og svo er kamína í kotinu okkar í Alviðru. Á liðnu ári breyttum við gasarni í viðararinn í húsinu okkar í Skerjafirði. Við Jón Kristján felldum svo tvö stór aspartré á síðasta ári, klufum viðinn og hlóðum upp til að þurrka til vetrar. Nú erum við eins og bændur sem þurfum að eiga til vetrarins og helst líka fyrningar. Ég stiklaði asparteinunga fyrir mörgum áratugum og feldi tvær aspanna og við njótum nú ljóss og hita. Ég kveiki upp reglulega og stundum fyrir hádegi þegar ég veit að ég á næðisstund fyrir djúp samtöl eða vingott við góða skáldsögu, ljóðabók eða djúpsækna guðfræði. Þetta er föstudagskveikjan í kvöld. Og við sátum fjölskyldan og töluðum um alvöru mál.