Húsið hans Heinrich Böll og Claire Keegan

Ég reyndi að ímynda mér hvernig húsið hafi verið sem Heinrich Böll og fjölskylda höfðu til umráða á Írlandi eftir seinni heimsstyrjöld. Sumarið 1974 fór ég með félögum mínum akandi suður Noreg, allt Þýskaland, til Austurríkis, Ítalíu og Sviss. Svo skildi ég við þá og fór yfir landmærin og til Staufen, bæjar skammt frá Freiburg. Þar var ég svo að læra þýsku í Goethe Institut með fólki úr öllum heimshornum. Þar voru öflgir og áhugaverðir Kóreubúar sem vildu kynna sér þýska sögu og menningu. Þeir töldu sig geta lært af Þjóðverjum hvernig ætti að búa við klofning eigin þjóðar. Ítalirnir skemmtu sér, Japanirnir voru iðnir og sendiherra Írlands í Þýskalandi var ötulastur við námið. Ég lagðist þessar vikur yfir þýskar bókmenntir og las í yndislegu sumarveðri m.a. írsku dagbók Heinrich Böll, notaði orðabók, glósaði og ræddi við ambassadorinn elskulega um Írland.

Hvernig var ströndin hans Böll í Cooagh-þorpi á eyjunni Achill? Var honum nauðsyn að flýja stríðshrjáð Þýskaland? Ég vissi vel að Böll hafði verið neyddur í þýska herinn en líka að honum var illa við Hitler og nazismann og gerði upp við ástæður, samhengi og inntak stríðs og ofbeldis. Wo warst du Adam er önnur eftirminnileg bók Böll sem ég las á sínum tíma. Dagbók Böll frá Írlandi kemur mér í huga núna þegar einræðisöfl sækja að og vegið er að vestrænu og bandarísku lýðræði. Bókin er ekki venjuleg dagbók heldur fremur hugleiðingar sem spruttu upp í huga flóttamannsins frá hryllingi stríðs og leitaði athvarfs í fátæktartilveru yndislegs fólks á Atlanshafsströnd Írlands.

Ég hreifst af rithöfundinum Claire Keegan þegar ég las bækur hennar Smámunir sem þessir og Fóstur. Í fyrrasumar skutumst við Jón Kristján, sonur minn, til Dublin. Við komum við bókabúð í miðbænum og ég spurði bóksalann hver væri besti höfundur Írlands nú. Hún svaraði brosandi og án þess að hika: „Það er Claire Keegan. Hún er frábær.“ Svo gaf forlagið Bjartur fyrir skömmu út fína þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur á þremur smásögum hennar undir heitinu Seint og um síðir. Vinkona okkar kom færandi hendi og gaf konu minni bókina. Svo þegar hún var búin að lesa vildi hún alls ekki skýra frá innihaldinu og sagði glettnislega að ég yrði sjálfur að lesa. Þegar hún bregst svo við eru bækurnar góðar og ástæða fyrir mig að lesa líka. Ég plægði því í gegnum þessar þrjár mögnuðu frásagnir, sem eru engar smásögur heldur allar margvídda stórsögur. Og þá kom Böll upp úr kafinu og þar varð samsláttur kraftanna í mínum huga. 

Keegan segir í miðjusögunni, Langur og kvalafullur dauðdagi, frá komu og veru rithöfundar í Böll-húsinu í Achill, konu sem hafði fengið húsið lánað til að vinna við lestur og skriftir. Tilfinningum er lýst og líðan í aðstæðum, rými, umhverfi og tengslum við náttúrukrafta, mas hænu og ref, sem og Chekov.

Claire Keegan skrifar af  næmni um yfirgang, ofbeldi og illsku í ýmsum myndum í sögum sínum. Þessar þrjár sögur í nýju bókinni eru rosalegar. Og í Böll-hús-sögunni verður rithöfundurinn fyrir aðsókn þýsks háskólamanns og síðan ofbeldi hans. Hann smættar konuna, veður yfir mörk hennar, msinotar gæsku hennar, gerir lítið úr getu hennar og yfirskyggir fegurð húss, sögunnar og svæðis með heift sinni og einsýnni veraldarsýn. Hann er sem afturganga nazismans? Er hann tákn um aðsókn ofbeldisins í túlkun Claire Keegan? Ég held að svo sé – tákn um vaxandi illsku. Allt í einu kom Böll-húsið til mín og með allt öðrum hætti en ég átti von á.

Verum á verði gagnvart illskunni – hvaðan sem hún kemur. Og lesum Seint og um síðir. Böll fékk Nóbelinn og ég held að Claire Keegan sé á biðlista þar líka. En aðalmálið er að lifa vel, iðja og biðja: … frelsa oss frá illu. 

THE HOUSE OF HEINRICH BÖLL AND CLAIRE KEEGAN
I tried to imagine the house that Heinrich Böll and his family had at their disposal in Ireland after World War II. In the summer of 1974 I drove with my friends from Oslo, through all of Germany, to Austria, Italy and Switzerland. Then we departed and I crossed the German border and went to Staufen, a small town not far from Freiburg . There I was in a Goethe Institut with people from all over the world learning German. I remember vividly the interesting group of South-Koreans who wanted to understand German history and culture. They thought they could learn from the Germans how to cope with the division of their own nation. The Italians had fun, the Japanese were industrious and Ireland’s ambassador to Germany was the most industrious in his studies. I was interested in getting to know German  literature. I knew it would help me learn German and I bought and read Heinrich Böll’s Irisches Tagebuch – the Irish diary. I did use a dictionary, took notes, repeated the words and learned bits and pieces of the language but I was fascinated by Böll and talked to the ambassador fondly about Ireland and Böll’s description. He was diplomatically impressed. 

What was Böll’s house like in the Cooagh-village on Achill? Was he forced to flee war-torn Germany? I knew that Böll had been drafted into the German army, but also that he disliked Hitler and Nazism and had to come to terms with the reasons, context and content of war and violence. Wo warst du Adam is also memorable book on evil and it’s concrete manifestations. Böll’s books come to mind now when authoritarian forces are advancing and Western and American democracy is being weighed down. They are meditations and reflections that soothed a troubled refugee from the horrors of war and being calmed in the culture of wonderful people on the Atlantic coast of Ireland.

I was thrilled by the author Claire Keegan when I read her books Small Things Like These and Foster. Last summer, my son Jón Kristján and I, went to Dublin. We entered a bookstore in the city-center and I did ask the bookseller who was the best author in Ireland right now. She replied with a smile and without hesitation: „It’s Claire Keegan. She’s fantastic.“ Then the Icelandic publisher Bjartur recently published Helga Soffía Einarsdóttir’s fine translation of three of Keegan’s short-stories with the title Seint og um síðir. A friend came to our house and gave the book to my wife. So when she was done reading, she refrained from describing or explaining the content of the stories. With a blink in her eyes she said I had to read them myself. I did. They are amazing stories, not short stories at all but multi-dimensional giants with immense power. Two of them told from the perspective of women and one from the perspective of a cheap guy. 

And then Heinrich Böll reappeared and in my mind and there was a fusion of forces. In the second story of the three, The Long and Agonizing Death, Keegan tells of the arrival and dwelling of a writer in the Böll-cottage in Achill, a woman who had borrowed the house to write and read. Keegan writes about the feelings of the hero in approaching the cottage, entering it, being there, the space, surroundings and relationships with natural forces, a hen and a fox included, as well as with a Chekov-story – all of this is described.

Claire Keegan is a master in writing about aggression, violence and evil and their appearances and disclosure in various forms. In the Böll-cottage-story, the resident writer is exposed to the visit of a German academician and then to his violence. He belittles the woman, the writer, oversteps her boundaries, abuses her goodness, belittles her abilities and overshadows the beauty of the house and the region with his fury and one-sided view of the world. He is like a ghost or sign of the rebirth of fascism – Nazism? Is he a symbol of the onslaught of violence? I think Claire Keegan interpretates latent and growing evil. 

All of a sudden, the Böll-cottage came to me and in a completely different way from what I expected. Reading Böll and Keegan we are urged to be alert – be on guard against evil – wherever it comes from and in whatever form or people. Let’s read slowly and attentively. Böll got the Nobel-price and I think Claire Keegan is on the waiting-room for it too.

Kardínálar framtíðar og páfar lífsins

Ég var í Róm síðastliðna páska. Við, kona mín og synir okkar, komum til borgarinnar á miðvikudegi í kyrruviku. Þegar við vitjuðum helgistaða og mustera vorum við svo snortin að sögusvimi sótti að okkur.[i] Borgin hreif okkur en lögregluþyrlur og vælandi bílalestir trufluðu því varaforseti Bandaríkjanna kom. Ókyrra heimsstjórnmálanna truflaði kyrru helgidaganna.

Annar sona minna hafði verið svo forsjáll að panta miða í athöfn í Péturskirkjunni á föstudeginum langa og líka í páskamessuna á torginu. Frans páfi sótti fársjúkur þessar athafnir. Magnþrota blessaði hann okkur á Péturstorginu á páskadag og svo dó hann inn í páskafönguðinn efra. Enn á ný söfnuðust tugir þúsunda til kvöldsamveru en nú til að blessa himinför páfans. Maríubænir og Faðirvorið voru flutt aftur og aftur og það var sefandi að biðja sömu bænina oft, eins og að hjala í móðurfaðmi. Bænir orða hið ósegjanlega og eru farvegur allra tilfinninga. Útför páfans var gerð á laugardeginum eftir páska og enn á ný kom fólk úr öllum heimshornum til að kveðja. Leiðtogar heimsins komu. Að mér sótti spurningin: Hverjir þeirra eru raunverulegir forystumenn og hverjir ekki?

Íhugað við skil

Við lát páfa og val nýs er hollt að hugsa aftur en líka fram. Frans var breytingapáfi og reyndi að uppfæra kirkjustofnunina og áherslur kenningakerfisins. Hann beindi sjónum að friðarmálum, manngildi og réttlæti – hann var hugsjónamaður. En hvernig leiðtoga fær kaþólska kirkjan þegar kardínálarnir í sistínsku kapellunni koma sér saman um nýjan arftaka á stóli Péturs í Róm? Og frumspurningarnar eru: Hvað er að vera leiðtogi? Togar hann eða leiðir hann? Hvernig er góður stjórnandi? Hvað gerir góður hirðir?

Hirðir sem skilar

Af hverju tala um páfa og hirða í dag? Jú, textar þessa kirkjudags varða stefnu, stjórn, verk, afstöðu og gildi. Þeir íhuga afstöðu manna og þar með hvernig við beitum okkur í lífinu, hverjum við treystum og fylgjum. Lexía dagsins er um spillta stjórnmálastétt og hrun ríkis. Guð talar – í 34. kafla Ezekíelbókarinnar – inn í hræðilegar aðstæður. Guð lofar að leysa, bæta, lækna og lífga. Þetta er messíasartexti. Líkingin af hirði er notuð, augljós og skiljanleg öllum smalandi landbúnaðarsamfélögum. Hlutverk hirðis var og er að tryggja farsæld. Ef honum lánast er hann góður. Þessa hirðislíkingu notaði Jesús: „Ég er góði hirðirinn,“ sagði hann og gaf hirðismyndinni menningarlega, pólitíska og trúarlega dýpt. Góður hirðir gætir velferðar allra, leitar og finnur hið týnda, gefur líf og gnægð. Hann fórnar jafnvel lífinu fyrir hópinn sinn. Skiptir áhersla Jesú Krists okkur máli? Pétur postuli ræðir um hinn góða stjórnanda í pistlinum.

Veraldarvandinn blasir við

Hvaða leiðtoga þarf kirkja, kirkjudeildir, heimur, þjóðir – já mannkyn og líf á jörðu? Getuleysi, rofið traust, hernaðarkapphlaup, deyjandi og sveltandi fólk – fullkomlega að óþörfu – er vitnisburður um að vondir hirðar bregðast hjörð sinni og hlutverki. Bandaríkjamenn safna vistum og hamstra vopn þessa daga til að undirbúa átök og borgarastyrjöld. Heimur okkar er plagaður af loftslagsvá, flóttamannakreppum, vaxandi misskiptingu, aukinni andfélagslegri umræðu og klofningi, falsfréttum, lýðskrumi og gildagliðnun. Lýðræði á undir högg að sækja. Einræðisöfl sækja að. The Guardian miðlaði í vikunni þeim hrollvekjandi tíðindum að aðeins 15% ríkja heims séu raunveruleg lýðræðisríki. 85% eru einræðisríki eða verulega spillt.

Trausta brúarsmiði

Því þurfum við að huga að hirðunum, við þurfum nýja tegund leiðtoga – fólk sem byggir brýr, leitar lausna í stað sundrungar og sýnir hugrekki í verki en ekki aðeins í orði. Engin þörf er á fullkomnum leiðtogum heldur einlægu og traustu fólki. Stjórar geta verið alls konar en staðan í stjórnmálum, öryggismálum, trúmálum, efnahagsmálum og menningarmálum teiknar upp prófíl leiðtoga sem þörf er á. Mín nálgun og þarfgreining á stjóraþörf heimsins er þessi.

  1. Í fyrsta lagi. Traust er súrefni lýðræðis og forsenda réttláts friðar og farsældar. Leiðtogar verða að þora og axla ábyrgð á ákvörðunum sínum og misnota ekki vald. Þjónandi leiðtogar eru betri en drottnandi stjórar. Við þörfnumst heiðarlegra og ábyrgra leiðtoga traustsins en ekki óreiðunnar.
  2. Í öðru lagi þörfnumst við forystufólks sem hefur þroskað með sér samkennd og umhyggju fyrir fólki en ekki bara valdi. Samkennd merkir að skynja og taka til sín líðan annarra. En það er ekki nóg að skynja og skilja heldur þarf að taka ákvarðanir sem bæta kjör og verja réttlæti, jafnvel þó það veki hörð viðbrögð og sé óvinsælt. Þroskuð samkennd og meðlíðan er samfara þroskuðu siðviti. Mannvirðing er systir samkenndar.
  3. Í þriðja lagi: Við þörfnumst leiðtoga með framtíðarstefnu. Við verðum að bregðast við loftslagsvanda, tækniþróun, ójöfnuði og stríðum. Því þarfnast þjóðir og hópar leiðtoga sem hugsa ekki bara til næstu kosninga heldur til næstu kynslóða. Framtíðarsýn krefst stefnumótunar sem sameinar umhverfisvernd, sjálfbærni og efnahagslegan stöðugleika. Góður stjóri er ekki upptekinn af eigin dýrð heldur farsæld fólks og lífs til framtíðar.  (Sigurður Gísli Pálmason benti mér eftir messu hnyttilega og réttilega á muninn á að vera „togandi“ leiðtogi eða leiðandi stjórnandi. Sem sé, góður leiðtogi togar ekki aðeins heldur leiðir fólk áfram.)
  4. Og svo er í fjórða lagi nístandi þörf fyrir brúarsmiði. Í skautuðum heimi þar sem pólitísk sundrung og öfgar aukast er þörf víðsýnna leiðtoga sem efla virðingu, hlustun og samvinnu. Brúarsmiðirnir vinna þvert á flokkslínur og tengja ólíka samfélagshópa. Loftslagsbreytingar, faraldrar, stríð, fjármálakreppur og trúarátök eru mál sem þvera landamæri þjóða og varða stóran hluta jarðarkúlunnar og lífs á jörðu. Leiðtogar framtíðar verða að virða fjölþjóðleg tengsl og geta tekið þátt í samstarfi. Stjórar heimsins verða að hafa þroskað með sér handanþjóðavit og samstarfsgetu þvert á mæri, hópa og hagsmunaátök.

Ólíkar skoðanir og góði hirðirinn

Í þessum söfnuði í kirkjunni í dag er fólk með mismunandi skoðanir á pólitískum álitaefnum, tollamálum, kirkjumálum og öryggismálum. En við getum væntanlega verið sammála um að við þörfnumst leiðtoga sem eru brúarsmiðir en ekki veggjasmiðir, fólk skilnings og vits en ekki dólgar. Og þá erum við komin að góða hirðinum, Jesú Kristi, heimfærslunni, okkur sjálfum og afstöðu okkar.

Nú eru gleðidagar – dagar upprisu og lífs – eftir kyrruviku og langan föstudag. Friður og velsæld heimsins er ekki háð fjölda dróna, skriðdreka og flugvéla heldur siðviti og gildum. Stórveldi hafa riðlast þrátt fyrir hernaðarmátt en engin vopn geta drepið gildi, trú og von. Það er hægt að deyða fólk en ekki líflegar hugsjónir og trú. Raunverulegir leiðtogar byggja á gildum og góðum hugsjónum sem eiga sér dýpri rætur en hagsmunir einstaklinga eða forréttindahópa. Friður heimsins og réttlæti verður aðeins þegar manngildi er virt, réttur þjóða til lífs virtur og gagnrýnin og heil trú fær að móta pólitík. Jesús segir: „Ég er góði hirðirinn.“

Við erum ábyrg

Frans páfi er látinn og ég vona að kaþólikkar velji mann lífsins, stjóra sem virðir fólk og byggir brýr. En val á stjórnendum og forystuliði heimsins byrjar í okkur sjálfum – okkur öllum. Okkur kemur velferð fólks við, hvort sem það býr nærri okkur eða fjarri. Við erum fjáls að því að velja, aga, hugsa, tala og kjósa. Alla daga og allar stundir sköpum við heim og mótum með vali okkar, kaupum og lífsháttum. Við erum því kölluð til að vera stjórar og kardínálar eigin lífs. Öxlum ábyrgð sjálf og virðum hið róttæka frelsi hið innra sem okkur var gefin sem fæingargjöf af Guði. Verum sjálf góðir hirðar og beitum okkur í vali stjóra samfélags, félaga og ríkis og menningar. Við erum í sömu stöðu og kardínálarnir í sistínsku kapellunni, eigum að prufa og skoða fólkið sem við veljum en líka skoða stjórana og ekki hika við að steypa þeim sem hugsa bara um eigin nafla, eigin hag og völd. Stjórar með skerta meðlíðan, samúð og hugrekki eru óhæfir. Við þurfum góða stjóra en dýpst og innst þurfum við góðan hirði sem virðir djúpþrá okkar og tengir okkur við elsku Guðs og líf heimsins.

Páfar lífsins

Hver er þinn hirðir? Er það pólitískur leiðtogi þinn eða hetja þín í einhverri menningarbúblunni? Eða er það alvöru hirðir sem er tilbúinn að fórna öllu – og meira að segja lífinu – fyrir þig? Hver viltu að sé þinn stjóri? Þitt er frelsið til að velja og boðskapur Jesú Krists er að hann vill vera hirðir þinn. Hann elskar þig og velur þig til að vera ástvinur hans. Við erum öll kardínálarnir sem veljum framtíð heimsins en Guð velur okkur sem ástvini og páfa lífsins.

Neskirkja, 2. sunudag eftir páska, 4. maí 2025.

Lexía: Esk 34.11-16, 31
„Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er. … Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.“

Pistill: 1Pét 2.21-25
Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Guðspjall: Jóh 10.11-16
Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

[i] Ingólfur Árnason, leikstjóri og leiðsögumaður í Róm, kenndi okkur þetta skemmtilega og lýsandi orð sögusvimi. https://romarrolt.com/v2/#

Meðfylgjandi mynd tók ég á Péturstorginu í Róm á föstudeginum langa, 18. apríl, 2025. 

Sólin

Tate Modern á 25 ára afmæli og the Guardian rifjar upp merkustu sýningarnar í túrbínusalnum sunnan Thames. Sól Ólafs Elíassonar í veðurverkinu er ein – ef ekki sú – merkasta í sögunni. Við feðgar hentumst inn í sólartúrbínuna á sínum tíma. Þessi hugleiðing um áhrif og þanka rataði óvænt upp á skjáinn hjá mér og er ekki á vefnum svo ég set hana hér inn Tate til lofs og Ólafi Elíassyni líka:

Sólin

Oft hugsaði ég um það sem barn að undarlegt væri að Guð skyldi vera skipta sér af okkur mönnum sem værum óþekk og lítt guðleg í lífinu. Hvaða máli skiptum við þessi peð í milljónahafinu? Skiptir þessi jarðarkúla og líf á þessum hnetti Guð máli? Okkur verður svimhætt á vetrarkvöldum þegar við leggjumst á bakið á stjörnubjartri nótt og sjáum hvelfinguna. Þú hefur eflaust fetað álíka hugarbrautir. Við verðum smá. Kannski er það merkilegt andóf af okkar hálfu að við hættum að mæna upp í himininn á þann hátt, þegar við eldumst? Eða hræðsla?

Sólin og leikurinn

Ég sá sýningu Ólafs Elíassonar í Tate Modern í London, þessa með sólinni í miðjum túrbínusal orkuvers. Við feðgar hlupum inn úr desembersuddanum og vissum ekki hvers við áttum von í þessu stóra húsi við hlið risaskorsteins á suðurbakka Thames. Það var eins og að verða fyrir hamskiptum að fara um dyrnar. Inni var mistur, litlar mannverur skruppu saman í gríðarlegu rými og fyrir enda var þessi risasól, hin algera miðja þessa stóra rýmis. Við gengum inn löturhægt, sáum allt fólkið, sem var eins og í leiðslu, fórum til að skoða hvernig sólarflekinn væri unnin. Við uppgötvuðum okkur til undrunar að sólin var aðeins hálf og hitt var speglun. Ólafur hafði í fundvísi sinni tvöfaldað stærð túrbínuhússins, sem þó er stærra en kirkjuskip Hallgrímskirkju. Hafði látið koma fyrir speglum í allt loftið og tvöfaldað þannig upplifun hæðarinnar. Þar með var aðeins nauðsynlegt að hafa sólina hálfa, en speglahallinn var réttur við enda salarins og sólin virtist heil. Hugvitið heillaði, hugsunin var stórkostleg og þetta listaverk er eitthvert það allra öflugasta sem ég hef upplifað. En svo fórum við að gefa fólkinu gaum. Á einum stað var hópur kátra háskólanema. Þau skríktu þegar hnjáliðir þeirra kiknuðu og létu sig falla á gólfið. Svo horfðu þau upp í loftið, sáu sjálf sig eins og smáverur í grassverði, sprikluðu, spörkuðu fótum upp og til hliða, mynduðu bylgjur og mynstur. Á öðrum stað voru nokkrir virðulegir karlar að benda upp í loftið, svo hljóp strákurinn í þá og þeir dönsuðu lítilega um leið og þeir horfðu upp í loftið og sáu spegilmynd sína. Hópur pelsklæddra kvenna kom líðandi. Það var heillandi að sjá þær leka niður í hláturgusum, leggjast í miljónaflíkum sínum á slípaða steinsteypuna og sprikla. Þær höfðu kastað hamnum, voru eins og tíu ára gamlar. Sólarverkið hans Ólafs var hugsað sem veðurverk og er merkilegt sem slíkt. En það á sér líklega dýpsta merkingu í að vera leikverk, listaverk sem kallar fram barnið í fólki, leyfir því að kasta belgnum, af hvaða tagi sem hann er, verða barn að nýju og leika sér. Einu gildir þótt höfundur hafi ekki gert sér grein fyrir því við hönnun þess. Listaverk eiga sér eigið líf eins og dæmin fyrr og síðar sanna. Sólin fer á loft í Tate og barnið vaknar. Mér fannst eins og þessi Tatesýning vera stórkostlegur undirbúningur fyrir jólin. Góð aðventusýning fyrir mig, sem var að stilla sálarstrengi fyrir Jesúkomuna. Jólasólin, jólastjarnan skín en barnið í okkur vaknar, dottandi vitundin vaknar, kætin brýst fram og við þurfum ekki annað en kikna í hnjáliðum, láta okkur falla aftur á bak, horfa upp í himininn, sprikla og taka við. Það er undursamlegt að leyfa lífinu og leiknum þannig að koma til okkar. Eða hvað?

Guð sem kemur

Guð elskar svo takmarkalaust að hann afskrýðist konungsskrúða sínum og tekur á sig mynd mannsins í sinni ófullkomnustu, reyndar sláandi fögru mynd. Í því er fólgin einhver dýpsta tjáning himinsins á mikilvægi þínu. Guði er svo í mun að koma til þín, kalla til þín, vekja athygli þína á kjörum þínum og tilgangi allrar tilverunnar, að hann kemur sem ungt líf. Kallar til alls þess sem innst er í þér, kallar þig til eigin sjálfs, til þess sem er kjarnlægast í hugskoti þínu og brjósti. Guð vill tala við þig, eiga fund með þér. Guð kemur aftur og aftur, talar við þig um hver jól, kallar fram eitthvað undarlegt, sem við náum ekki að skýra og skilgreina. Yndisleiki, tvíræðni og torræðni jólanna er slík. Jólin eru þó ekki aðeins atburður, sem er endurtekinn árlega. Guð er ekki eins og starfsmaður stórfyrirtækis sem er á þönum milli útibúa og útstöðva fyrirtækisins. Guð er alltaf nærri, alltaf viðstaddur, alltaf hjá þér og er ávallt til reiðu þegar á bjátar. En Guð er hjá þér biðjandi, ber fram bón um að þú verðir samstarfsaðili Guðs, biður þig að vakna til vitundar um ábyrgð þína.

Stærðir veraldar og maðurinn

Sólin í Tate er stór, en stærri er vetrarhimininn, þegar maður verður skelfilega lítill. En þá fyrst verður maðurinn smár gagnvart lífinu þegar fer að daga á mann stærðir veraldarinnar allrar. Stjörnufjöldinn gefur vísbendinu. Bara í okkar sólkerfi, Vetrarbrautinni, eru líkast til hundruðir milljarða stjarna. En síðan er ótrúlegur fjöldi annarra vetrarbrauta til í alheiminum, líklega 100 milljarðar. Ef við gerum ráð fyrir að meðalfjöldi stjarna í vetrarbrautum sé svipaður fjöldanum í okkar vetrarbraut má ætla að fjöldi stjarna sé nærri 20.000 milljarðar milljarða eða 20.000 trilljónir. Þessar tölur hafa litla merkingu í huga okkar og eru óskiljanlegar en gefa okkur þó einhverja tilfinningu fyrir að jörðin okkar er eins og títuprjónshaus og við mannfólkið sem míkróskópískt smælki í óravíddum geimsins. Sá Guð sem er að baki slíku vetrarbrautaverkstæði er mikill. Er líklegt að skapari að starfi við milljarða sólna líti til manna og komi jafnvel sjálfur. Allra sérkennilegast er þó að Guð velji að koma í mynd barns við hinar erfiðustu og niðurlægjandi aðstæður. Í þessu er tjáð þverstæða hins kristna boðskapar, að Guð hafi valið sér þessa ótrúlegu aðferð til að koma til þín, í mynd barns.

Sól í Tate – jólasól í heimi

Tatesýningin er opinberandi fyrir þarfir manna, til að vera í samræmi við sitt innra eðli, en einnig að sjá sig í einhverjum speglum sem sýna fólk. Þeir speglar eru hin kristna hefð. Við megum spegla okkur í mynstri og formum. Þar er kirkjan að starfi í safnaðarlífinu. Við megum spegla gildi okkar og langanir í trúarlífi og túlkun aldanna. Tatesýningin góða verður tekin niður. Hver gerði þetta spurði lítill enskur strákur pabba sinn. „Some Icelander,“ sagði pabbinn. En svo hverfa þessi tjöld um bernskt líf og veður, en eftir situr vitneskjan um list, ávirkni og líf okkar. Eru jólin með sama móti í þínu lífi? Eru þau sýning sem varir aðeins um tíma og svo tekur þú niður stjörnur og ljós og pakkar jólabarninu þínu, sjálfum þér, tilfinningum þínum niður í kassa sem bíður næstu jóla? Sól í Tate og fólkið fór að leika. Sól Guðs rennur upp á himinn heimsins og þá er allri heimsbyggðinni boðið til bernsku og leika. Tilefnið til leiks er ærið í Tate, en tilefnið er gríðarlegt í tilverunni sjálfri. Guð kemur, Guð barn í heimi, Guð fæðist til að koma. Og þegar það verður má varpa öllu frá sér og spegla sig í öllum speglum himinsins.

Myndina, sem fangar vel áhrif veðurverks Ólafs á fólk í túrbínusalnum, tók Dan Chung/Guardian. 

Dásamlega Sikiley

Við Elín Sigrún fögnuðum 25 ára hjúskaparafmæli á páskum og vildum gjarnan fara til Ítalíu til að fagna og taka á móti vorinu. Strákarnir okkar gátu verið með okkur í hálfan mánuð og hvorugur þeirra hafði komið til Ítalíu áður. Í byrjun vorum við með augu á norðurhlutanum en fundum ekki húsnæði sem hentaði okkur og fórum því að skoða aðra kosti. Vinir okkar ráðlögðu okkur eindregið að vera í Róm um páskana og njóta hins heilaga árs kaþólsku kirkjunnar. Svo fengum við lánað hús á vesturhluta Sikileyjar. Þangað höfðum við aldrei komið. Við tókum því stefnu að fara fyrst til Sikileyjar og síðan til Rómar. Þegar leið að ferðarlokum vorum við öll sammála um að það skipulag hefði lánast vel. Synir okkar töldu þetta bestu ferðina sem við hefðum farið og höfum þó farið margar góðar.

Sikiley kom mér mjög á óvart. Ég tengdi hitagula liti við Sikiley – kannski sátu guðföðurmyndirnar í mér? En við vorum á ferðinni í apríl og allt var litríkt og ferskt. Vorveðrið hentaði okkur vel og blómgróðurinn í dölum og hlíðum var stórkostlegur. Eyjan er ekki stór, aðeins um fjórðungur Íslands. Og hún er mun þéttbýlli en ég átti von á og íbúar á fimmtu milljón. Þorpin eru því mörg og borgirnar líka. Mannlífið fjölskrúðugt og sagan þykk.  

Hvernig á maður að skipuleggja Sikileyjarferð? Við ætluðum að nota húsið í hæðunum nærri vesturströndinni sem miðstöð og aka þaðan í frá. Við flugum til Palermo og leigðum bíl. Við urðum hissa þegar við komum á staðinn og uppgötvuðum að þorpið var líflítið. Það var eins og stórslys hefði orðið og enn hefði fólk ekki hætt sér til baka. Fyrrum höfðu tíu þúsund manns búið þarna en atvinnuleysi og áföll tuttugustu aldar höfðu hrakið fólk burtu. En húsin urðu eftir, táknmyndir brostinna vona. Mörg þeirra höfðu grotnað niður og orðið fuglaskýli og tilraun með gróður á mörgum hæðum. Það er hægt að kaupa evruhús víða og jafnvel evruþorp.

Áður en strákarnir komu vorum við búin að fara til Trapani, Castelmare del Golfo og skoða grísku minjarnar í Segesta. En við ákváðum að fara frekar hringferð en að búa á einum stað. Þar sem við vorum á ferð fyrir ferðamannatímann leigðum við íbúðir á airbnb í einn til þrjá daga. Við vorum í Palermo í nokkra daga og hún er dásamleg. Svo ókum við hraðbrautina frá Palermo til austurs, skoðuðum þorp á leiðinni og fórum á einum degi alla leið að Etnu. Þar gistum við á undursamlegum vínbúgarði í Etnuhlíðum sem vinir okkar höfðu bent okkur á. Við fórum hringferð um Etnu og skoðuðum þorpin á leiðinni. Og fórum til Taormina og urðum Laxnesk, ræddum um strípaðan unglinginn við skriftir á Vefaranum í sumarhitanum. Og svo var Oscar Wilde þarna og inflúensur (áhrifavaldar) fyrri tíða sem Halldór hefur auðvitað verið búin að heyra um. Styttan af skáldinu fríða við aðalgötuna er flott – karlinn eldist ekkert.

Taormína er Hollywood Sikileyjar og bærinn er fórnarlamb ofurtúrisma. Vinkona okkar í Palermo lagðist gegn því að við færum þangað. En gamli bærinn er laglegur og útsýnið stórkostlegt. Við ókum svo suður og vestur og gistum í Caltagirone sem er huggulegur listabær. Þar gistum við í húsi frá 16. öld og loftið í svefnherberginu var mála eins og hvelfing í kirkju. Við sváfum vel. Héldum svo áfram til Agrigento og skoðuðum hinn magnaða musteradal grískra minja. Svo var Burri-minnismerkið um jarðskjálftann 1968 á leið okkar upp til Calatafimi þar sem við vorum síðustu dagana. Við flugum svo frá Palermo til Rómar.  

Hvernig á maður að skoða Sikiley? Með opnum augum, eyrum, huga og vitund. Að fenginni reynslunni held ég að hentugast sé að fljúga til Palermo sem er á norð-vesturhorninu og síðan fra Catania sem er á austurströndinni – eða öfugt. Við vorum mjög sátt við að keyra á milli staða. Okkur var líka sagt að almenningssamgöngur væru góðar á Sikiley. En okkur líkaði frelsið að hafa bíl. Svo er apríl góður tími og hægt að breyta um stefnu ef þarf. Það er ekki hægt að klára Sikiley í einni ferð. Um umferð og akstur á Sikiley að baki þessari smellu. 

Sikiley er menningarlega þykk. Vegna legunnar var hún lykileyja Miðjarðarhafsins. Þess vegna fóru Föníkumenn þar um, síðar Grikkir, svo arabarnir, normannar, Spánverjar, Frakkar og allir sem leituðu valda, auðs og áhrifa. Byggingasaga og menningarsaga eyjarinnar er því svo skrautleg og fjölþætt, ekki bara ítölsk. Matarmenningin er grísk, arabísk, spænsk, frönsk og auðvitað ítölsk líka. Sikileyskur matur er Miðjarðarhafsmatur. Áhrifin frá matargerð við austurhluta Miðjarðarhafs og Norður-Afríku eru augljós. Mér þótti matreiðslan spennandi.

Elín fékk tilboð um að fara á matreiðslunámskið skammt fra Caldagirone og við karlarnir fórum með – og þvílíkt ævintýri. Ég mun héðan í frá sækjast eftir því að fara á matarnámskeið þar sem ég verð á ferð, ekki aðeins til að læra aðferðir heldur til að fá tilfinningu fyrir inntaki og samhengi. Við lærðum margt um hveiti, krydd, handverk og áherslur. Svo eru mörg veitingahúsin framúrskarandi. Hvergi í heiminum höfum við fengið betri pizzur en í Palermo!

Náttúra Sikileyjar í fjölbreytileg og náttúrfegurð mikil. Andstæður eru miklar. Dalirnir blómum skrýddir og grösugir en Etna ávallt krýnd snæhettu allt árið. Hún er Hekla þeirra Sikileyinga. Fjöll, dalir, strendur og eldfjall. Landbúnaður er mikill og hefur verið nútímavæddur. Það er gaman að skoða olífulundina og vínakrana. Vorið var komið í plönturnar. Og framleiðsla gæðavöru er að aukast.

Alls staðar var okkur vel tekið og vel þjónað. Sikileyingar hafa löngum verið taldir vinsamlegir. Fordómar okkar um ofurspillingu gufuðu upp. Við vorum svo heppin að dr. Anita Bestler var leiðsögumaður okkar í Palermo. Hún er auk þess að vera afar vel að sér í listum, pólitík og menningarmálum einn helsti mafíusérfræðingur Sikeyjar. Hún sagði okkur merkilegar sögur um ítök og sögu mafíunnar. En meðlimir eru ekki tugir eða hundruð þúsunda heldur fimm þúsund. Þeir hafa hag af túrismanum. Því er fólk öruggt á götum og ferðum. Ég var djúpt snortinn af náttúru og menningarsögu Sikileyjar. Og langar að fara aftur.

Dr. Anita Bestler er stórkostlegur leiðsögumaður – einn gaf henni þau ummæli á tripadvisor að hún væri besti leiðsögumaður Sikileyjar. Ég trúi því og við mælum með henni. Hún gat meira að segja sýnt okkur Mussolini á mynd í hvelfingu kirkju í Palermo! En þar var Benito helvítismegin á lífsstiganum mikla. Skoðið kynningarsíðuna Anitu Bestler að baki þessari smellu. Ef einhver hefur áhuga á mafíunni, Sikiley eða Möltu hefur hún skrifað mikið um þau mál. Frábær fræðari og Amazon kemur bókunum í póst til ykkar. 

Akstur, vegir og umferð á Sikiley

Er hægt að keyra á Sikiley? Já. Er öruggt að aka á eyjunni? Já. Í fjölskylduferð í apríl 2025 keyrði ég nærri 1300 kílómetra á alls konar sikileyskum vegum og við fjölbreytilegar aðstæður. Ég fékk því þokkalegt yfirlit og tilfinningu varðandi umferðina á eyjunni. Ítalir fjargviðrast gjarnan yfir traffíkinni og fórna höndum. Jú, vissulega er hún stundum skrautleg en þegar ég var búin að fá tilfinningu fyrir aksturslaginu og menningunni fannst mér auðvelt að keyra bæði í borgunum og utan þeirra. Akreinar skipta heimamenn litlu máli og allt er sveigjanlegt. En tillitssemi og umhyggja er áberandi í umferðinni. Tuddaskapur og ruddaskapur er fátíður og flestir þeirra innfæddu eru góðir og ökumenn. Sikileyingarnir sögðu líka að aðkomumennirnir væru hættulegastir því þeir ætluðust til að ökumenningin væri eins og heima hjá þeim. En menning – líka á götum og vegum – er alltaf svæðistengd og bundin. Á Sikiley ber manni að vera sem lukkulegur Sikileyingur.

Ég sá aldrei bílslys, árekstur eða lemstraða bíla í ferð okkar. En eyjarskeggjar voru ekkert að tvínóna og fóru yfir óbrotnar línur til að keyra fram úr mér ef þeim þótti ég bera of mikla virðingu fyrir hámarkshraðanum. Okkur fannst við aldrei í hættu nema í Taormina – þar kom bíll bakkandi á röngum vegarhelmingi í veg fyrir okkur í 90 gráðu beygju! Og allir í kring flautuðu í ofboði og bíllinn stoppaði á síðustu stundu.

Erfiðast var að fara um þröngu göturnar í miðaldaþorpunum en stíf þjálfun í dráttarvélaakstri unglingsáranna og sveitaakstri fullorðinsáranna kom að gagni og tryggði að aksturinn tókst. Oft voru aðeins einn eða tveir cm. sitt hvorum megin bíls þar sem við fórum um. Ég taldi okkur sleppa vel að rispa bílinn ekki. Amerískir kaggar henta illa á Sikiley en litlu Smartskutlurnar og gömlu Fíatarnir henta þessum aðkrepptu aðstæðum vel. Í bæjum og borgum er oft erfitt að finna stæði og vert að skoða stæðamál með góðum fyrirvara og hvernig borga á fyrir notkun. Hlaðið niður EasyPark-appinu og hugið að öppunum sem notuð eru mismunandi svæðum á Ítalíu. 

Ég fór fyrst keyrandi um Evrópu og Norður-Ítalíu sumarið 1974. Þá voru vegirnir í Þýskalandi og Austurríki frábærir en þeir ítölsku verulega slæmir, lúnir, holóttir og hættulegir. Svo þegar komið var til Sviss var eins og fara af þvottabretti og á straujaðar hraðbrautir. Svo keyrði ég talsvert í Toskana fyrir og eftir aldamótin og þá hafði mikil breyting orðið á vegakerfinu til batnaðar. Það sama á við Sikiley. Vissulega eru margir sveitavegirnir gamlir en þeir eru vel malbikaðir og viðhald þeirra er gott. Nýju hraðbrautirnar eru góðar og margar glæsileg mannvirki. Um náttúrperlur og skrautdali er stundum ekið á margra kílómetra brúarhraðbrautum. Alls staðar eru afreinar utan tveggja stefnugreina svo auðvelt var að aka af hraðbrautunum. Og aðreinarnar voru allar sömuleiðis langar og góðar svo innakstur gengur greiðlega fyrir sig. Hægri akgreinarnar voru alltaf fyrir hægari umferð og hægt að nota hana án þess að nokkur væri að flauta eða pirra sig. Gamlir Fíatar fóru á sínum 60 km á hraðbrautinni og enginn kvartaði. 

Til að leigja bíla í Evrópu þarf að taka með plastið – ökuskírteinið – og nýjar reglur Evrópusambandsins útiloka jafnvel skírteinin okkar svo við eigum á hættu að fá ekki bíla afhenta af því vantar skírteini sem heimila akstur í Evrópu. Ég fékk ekki bílinn sem ég var búinn að panta í Palermo og ekki heldur vinir okkar sem voru með sömu vél og við. Ég þurfti því að gera sérsamning við litla bílaleigu – sem auðvitað kostaði sitt. Tryggja þarf að Íslendingar geti ferðast og leigt bíla að vild. Og ungsveinarnir fengu ekki að keyra því þeir fengu ekki skírteinin sín vegna tafa hjá sýsla í Kópavogi. En svo gerðu þeir sér grein fyrir að gamli maðurinn hafði meiri og skilvirkari torfæruþjálfun en þeir og teygðu bara úr sér í baksætinu eða sáu um kortalesturinn á Googlemaps eða Applemaps.

Já, það er ljómandi gott að aka á Sikiley. Reglan að búast við eða gera ráð fyrir hinu óvænta og uppákomum og hafa vökul augu á nærumferðinni. Það minnkar hætu á óhöppum. Umferðin virðist hættuleg en er lífræn og flæðandi en ekki lögmálsbundin og vélræn. Dásamlega Sikiley – líka á vegunum. 

Myndin hér að neðan er tekin nærri Etnu. Og kennimyndin ofan greinarinnar er tekin frá gríska leikhúsinu í Segesta og sér yfir hraðbrautina milli Trapani og Palermo. Í fjarska við ströndina er hluti bæjarins Castelmare del Gofo, sem er huggulegur strandbær.

Engill Drottins varðveiti þig á öllum vegum þínum.